Gló Höf. 

DANS – Guðrún Svava


Guðrún Svava Kristinsdóttir er dansari sem kennir pilates, jóga og liffærafræði og er því afar fróð um líkamann og hans virkni. En ekki nóg með það þá er danssaga hennar mikill innblástur um hvað er hægt ef að viljinn er fyrir hendi. Hana langaði frá unga aldri að æfa bardagalistir eins og Tae Kwon Do, Karate eða dans, en það var ekki í boði á Neskaupsstað þar sem hún bjó sem ung stúlka, aðeins fótbolti og blak. Hún byrjaði því ekki að dansa fyrr en hún var 15 ára þegar fjölskylda hennar fluttist aftur til Reykjavíkur. Hún byrjaði í byrjendaballet fyrir fullorðna við Klassíska Listdansskólann og vissi strax að hún vildi verða dansari. Hún lagði því hart að sér og komst fljótlega á sama stig og jafnaldrar hennar sem voru búnir að dansa síðan þeir voru ungir. Tvítug flutti hún til New York borgar eftir að hafa tekið áheyrnarpróf og komist inn í professional training program Martha Graham dansskólans: „Graham tæknin hafði alltaf heillað mig vegna þess hvað hún krefst mikils af dansaranum líkamlega því hún er ein erfiðasta danstækni sem til er og hún krefst einnig mikis af þér sem performer, tæknin er „performance tækni“ þannig hver einasti danstími sem þú tekur krefst þess að þú komir með persónulega tjáningu í hverja einustu hreyfingu.“ segir Guðrún.

Eftir að hún flutti aftur heim eftir dansnámið í New York tók hún sér smá hlé frá dansinum og byrjaði í iðnaðarverkfræði og er að hefja síðasta árið við Háskóla Íslands og útskrifast næsta vor. Meðfram námi kennir hún við Listaháskóla Íslands; pilates og líkamsvitund fyrir dansara og líffærafræði (Human Anatomy), hún kennir líka Hot Yoga við Hreyfingu, heldur sín eigin námskeið, heldur fyrirlestra í fyrirtækjum og kennir líffærafræði við hin ýmsu yogakennaranám á Íslandi. Hún hefur því nóg að gera og setur markið hátt.

Þegar hún er spurð hvað sé framundan, segist hún sjá fyrir sér að klára námið við HÍ en eftir það langi hana að hella sér aftur út í dansinn og fara að sýna á sviði aftur. Við fengum þessa kröftugu ungu konu í yfirheyrslu fyrir fasta liðinn sérfræðingurinn

IMG_9983

SÉRFRÆÐINGURINN

FULLT NAFN: Guðrún Svava Kristinsdóttir


STARFSHEITI: Nemi, dansari og kennari


HVAÐ ER HREYFING FYRIR ÞÉR? Hreyfing er kjarni lífsins. Við erum hreyfanlegar verur sem tjáum okkur líkamlega og eigum samskipti við umhverfið með líkama okkar og því betri sem líkami okkar er að hreyfa sig því betur líður okkur.


ÞÍN STÖÐ: Hreyfing, Klassíski Listdansskólinn og Listaháskóli Íslands


ÞÚ ÞJÁLFAR: Yoga, Pilates, nútímadans og líffærafræði fyrir yogakennara/dansara.


SKEMMTLEGAST AÐ KENNA: Ég get ekki gert upp á milli, ég kenni svo mismunandi stíla að allir hafa eitthvað sem mér finnst ótrúlega skemmtilegt.


SKEMMTILEGASTA HREYFING AÐ GERA SJÁLFUR: Yoga og að dansa því ég finn fyrir svo miklu frelsi í líkamanum þegar ég stunda þá hreyfingu, en Pilates er nauðsynlegt fyrir líkama minn.


ÞÚ FÉLLT FYRIR DANSI ÞEGAR AÐ: Ég man ekki eftir einhverju einu augnabliki. Dansinn hefur alltaf náð mér en við eigum í ástar-haturs sambandi þar sem líkaminn gengst undir svo mikið álag og erfiði þegar maður er að dansa sem atvinnumaður á háu stigi. Ég er ástfangin af dansinum þegar mér líður vel líkamlega og ég er annaðhvort í tíma eða æfingu fyrir sýningu hjá kennara/danshöfundi sem talar til mín á hærra andlegu og líkamlegu leveli og nær útúr mér þessu dýrslega eðli í dansinum þar sem þú ert að hreyfa þig og þér finnst hver einasta fruma hreyfast í smáatriðum.


HVAÐ GERIR DANSINN FYRIR ÞIG?: Dansinn kveikir í mér eitthvað grunneðli sem ég hef ekki nálgast hvergi annarsstaðar.


HVERNIG KOM SVO JÓGA OG PILATES INN Í MYNDINA: Pilates og Yoga komu svo inn í myndina því sem ungur dansari í New York lærði ég fljótt að það þarf að hugsa vel um líkamann því álagsmeiðsli eru algeng vegna ítrekaðs álags á sömu vöðvana og liðamótin. Maður heyrir oft talað um að pilates er mjög gott fyrir dansara t.d því það er mjög meiðslafyrirbyggjandi hreyfikerfi. En maður áttar sig ekki á þessu að fullu fyrr en maður meiðist sjálfur. Ég var að díla við eitt slíkt álagsmeiðsli og búin að fara til lækna og sjúkraþjálfara í New York en það hafði lítið að segja. Mér var bent á að fara í eitt tiltekið Pilatesstúdíó og taka einkatíma því það myndi hjálpa. Ég trúði því nú ekki en lét að lokum leiðast til og keypti mér 3 einkatíma tíma í pilatesstúdíói á Manhattan sem heitir Kinected. Það virkaði svona vel en eftir 3 tíma var líkaminn minn allur í jafnvægi og álagsmeiðslið sem ég var með nær alveg farið og mér leið miklu betur. Eftir það langaði mig að verða certified Pilateskennari og gerði ég það á endanum í gegnum Kinected.

Ég hélt áfram að dansa, en það sem mig vantaði var ákveðin jarðtenging í bland við mýkt í líkamann. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég fór að stunda yoga mjög reglulega í New York. Ég fann strax áhrif yoga á líkamlega getu mína í dansinum – ég var miklu mýkri og opnari og meira fljótandi í hreyfingum, og svo voru áhrif savasana (lokastöðu yoga – líkstaðan) og hugleiðslu á mig andlega mikil. Að flytja ungur út til stórborgar eins og New York tekur mikið á andlega og yoga hjálpaði mér mjög mikið í að vera betri við sjálfa mig, kvíði vegna námslána, leigunnar, dansins og allt í kringum það fór að verða minni vegna þessarar ró sem ég fékk í yoganu.

IMG_0131


ÞEGAR ÞÚ KLÁRAR TÍMA HJÁ MÉR Í YOGA EÐA PILATES LÍÐUR ÞÉR….: Erfitt er að segja hvernig fólki á að líða þar sem hver og einn á sína eigin upplifun á atburðum, en vonandi muntu vera opinn og teygður og með dass af góðum andlegum áhrifum.


LEYNIVOPNIÐ ÞITT: Að þekkja grunninn vel í öllu. Hvort sem það er dans eða yoga eða t.d lyftingar. Síðan það að þekkja líffærafræði líkamans inn og út. Að vita nákvæmlega hvaða hluta líkamans á að teygja eða spenna hverju sinni, vera meðvitaður um alla litlu vöðvana, beinin og lögun þeirra, liðamót og hvernig þau hreyfast. Vita og skilja hvernig hægt er að breyta álagi í stöðu eða hreyfingu til þess að umbreyta henni algjörlega. Ég legg mikið uppúr því að nemendur mínir kynnist eigin líffærafræði á sem auðveldastan hátt, ég reyni að tala beint til líkamans og nota almenna skynsemi.


ALGENGASTI ÆFINGARKLÆÐNAÐUR: Svartar yogabuxur og hlírabolur.


Í ÍÞRÓTTATÖSKUNNI ER ALLTAF: Hnetumix, nuddbolti, 1-2 sett af yogafötum.


HVAÐ ÆFIR ÞÚ SJÁLF OFT Í VIKU: Ég æfi eitthvað alla daga, stundum er æfingin góður yogatími eða hlaup/ræktin en stundum er það bara léttur göngutúr eða yogadýnan mín heima og þær teygjur og æfingar sem ég þarf hverju sinni.


UPPÁHALDS TEYGJA EÐA JÓGASTAÐA: Downward Dog. Hún er fullkomið jafnvægi á milli mýkt og stöðugleika. Hún er inversion staða (staða þar sem maður fer á hvolf), hún teygir vel á og opnar t.d axlir en á sama tíma styrkir hún og kemur blóðflæðinu af stað.


HVAÐ EÐA HVER GEFUR ÞÉR INNBLÁSTUR: Góð tónlist, Martha Graham – tækni hennar og sýn hennar á dansarann og tjáningu, líkamlega formið sjálft og líffærafræði líkamans.


ÞEGAR ÞÚ ERT EKKI Á ÆFINGU ÞÁ ERTU: Að læra í HÍ eða kenna.


UPPÁHALDS MATUR/DRYKKUR EFTIR ÆFINGU: Góður grænn smoothie, eða gott stórt salat með einhverju grilluðu grænmeti í bland við ferskt.


UPPÁHALDS DRYKKUR: Vatn.


UPPÁHALDS HREYFING UTANDYRA: Góður göngutúr eða hjólatúr.


UPPÁHALDS GLÓ STAÐUR OG UPPÁHALDS RÉTTUR: Gló Fákafen alla leið, Skálin – með raw bollum, grænkáli, kelp núðlum, salati með rótargrænmeti og rauðrófum, cashew hnetum og extra pestó.


NÝJASTA HEILSUÆÐIÐ/TRIX SEM ÞÚ MÆLIR MEÐ: Ég elska intermittent fasting sjálf. Ég held ákveðnum ca. 12-14 tíma glugga á daginn þar sem ég borða ekkert. T.d ef ég borða síðustu máltíðina mína kl. 8 um kvöld þá borða ég ekkert fyrr en kl. 10 á morgnanna stundum líður lengra. Þetta hentar mér vel því náttúrulega er ég ekki svöng á morgnanna og ég legg mikið upp úr því að borða aðeins þegar ég er svöng og þarf að borða. Ég komst að þessu eftir að hafa prófað marga hluti og hlustað á líkamann. Ég snakka ekki í óhófi þegar mér leiðist t.d. því það er eitt það versta sem ég get gert fyrir meltinguna mína og líkamlega og þ.a.l andlega líðan.


ÞAÐ FYRSTA SEM ÞÚ GERIR ÞEGAR ÞÚ VAKNAR: Fæ mér stórt vatnsglas eða heitt vatn með sítrónu.


HVERSU MIKLU MÁLI SKIPTIR ANDLEGI ÞÁTTURINN TIL AÐ NÁ LENGRA: Andlegi þátturinn skiptir öllu máli í öllu sem við gerum. Eftir því sem tíminn líður og ég hef sökkt mér dýpra í að rannsaka áhrif andlegrar heilsu á líkamann, og áhrif líkamlegrar líðan á andlega heilsu þá sé ég hjá sjálfri mér og öðru fólki hvað andleg heilsa stjórnar miklu ekki bara í lífi okkar heldur líka líkamlegu ástandi.


BLOGG EÐA BÓK SEM ÞÚ MÆLIR MEÐ: Ég dett stundum inná http://zenhabits.net/ – Þessa stundina er ég að lesa Ný Jörð eftir Eckhart Tolle og hún er mjög áhugaverð lesning.


MANTRA/MÓTTÓ: Mottóið mitt þessa stundina er að fylgja alltaf sjálfri mér. Við fjarlægjumst stundum hvað okkur langar í raun og veru og hvað okkur finnst í hjartanu í erli dagsins, t.d. þegar við reynum að passa inn einhversstaðar ómeðvitað. En ég reyni alltaf að minna mig á að fylgja sjálfri mér því þannig líður mér best og þannig gengur mér best í lífinu.

Við þökkum Guðrúnu Svövu fyrir svörin og mælum með því að þið fylgist með henni hér. Hún heldur úti afar skemmtilegu og áhugaverðu bloggi :

Blogg: www.gudrunsvava.wordpress.com

Instagram: https://www.instagram.com/gudrun_svava/

Facebook Page: https://www.facebook.com/gudrunsvavapilates/

snap: gudrun_svava


 

  • 8. ágúst, 2016
  • 0
Gló
Gló
Um höfund

Gló opnaði fyrsta veitingastaðinn árið 2007 í Listhúsinu. Í dag rekur Gló þrjá veitingastaði og heilsubar í Fákafeni. Solla Eiríks er matarhönnuður Gló og frumkvöðull í íslensku hollustufæði. Gló leitast eftir því að búa til mat sem hjálpar viðskiptavinum sínum að verða besta útgáfan sjálfum sér. Finndu þitt Gló!

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

10 HUGMYNDIR FYRIR GLÓANDI SUMAR
04. júlí, 2017
TEAM GLÓ: Íris Ásmundardóttir
24. maí, 2017
JÓGA: Ingibjörg Stefáns
19. október, 2015
Næring hlauparans
15. október, 2015
KRAFTLYFTINGAR: Agnes Kristjóns
27. júlí, 2015