Gló Höf. 

Fanney Hauksdóttir – Team Gló


Fanney Hauksdóttir, heimsmeistari í kraftlyftingum, var með góðan grunn þegar hún byrjaði í sportinu. Hún hafði æft fimleika frá ungum aldri en þurfti að hætta vegna meiðsla. Kraftlyftingarnar komu óvænt í staðinn og hún hefur heldur betur stimplað sig inn í íþróttina á stuttum tíma. Hún er að sjálfsögðu hluti af Team GLÓ, enda framúrskarandi á sínu sviði. Við heyrðum í henni og spurðum hana út í kraftlyftingar, lífsstílinn og hvað kemur á eftir heimsmeistaratitli:

865963

SEGÐU OKKUR AÐEINS FRÁ ÞÉR, HVAR ÓLSTU UPP OG HVENÆR BYRJAÐIR ÞÚ Í ÍÞRÓTTUM?

Ég hef alla tíð búið á Barðaströnd á Seltjarnarnesi og er mikill Seltirningur. Ég byrjaði í íþróttaskóla Gróttu þegar ég var 3 ára og fór svo áfram í fimleika. Systur mínar voru allar í fimleikum og mamma sat í stjórn fimleikadeildarinnar svo leiðin lá alltaf beint þangað. Ég æfði fimleika alveg fram á unglingsaldur en hætti útaf meiðslum og byrjaði svo í kraftlyftingum 2011.

 

HVERNIG ER ÞÍN KRAFTLYFTINGASAGA Í STUTTU MÁLI?

Þegar ég hætti í fimleikum að þá fannst mér eins og það hafi komið tómarúm inn í lífið mitt. Ég var vön að æfa nokkra klukkutíma á dag 6 daga vikunnar og alltaf að keppa en allt í einu hætti það. Ég fór strax að leita mér að einhverju til að fylla upp í tómið. Ég prófaði að æfa samkvæmisdans í 2 ár en endaði svo á því að kaupa mér kort í World Class og ætlaði bara að reyna að halda mér í góðu formi. Ási og Ingimundur sem eru báðir einkaþjálfarar úti á Seltjarnarnesi náðu að plata mig út í það að keppa á Kópavogsmóti í bekkpressu, en þar lenti ég í 2.sæti. Ég hef alltaf verið mikil keppnismanneskja og setti mér strax ný markmið. Ég ætlaði nú bara að taka eins og eitt mót í viðbót, en þau eru orðin aðeins fleiri en það í dag.

 

HVAÐ ER ÞAÐ SEM HEILLAR VIÐ KRAFTLYFTINGAR?

Kraflyftingar eru fyrst og fremst frábær hreyfing sem allir geta stundað. Maður styrkist vel og nær að halda líkamanum í góðu formi. Það skiptir ekki máli hvað maður er gamall eða hver bakgrunnur mannst er, það geta allir tekið þátt. Svo er félagsskapurinn í Gróttu úti á nesi ótrúlega góður, það er alltaf gaman að mæta á æfingu og maður hittir fullt af skemmtilegu fólki.

 

HVERNIG VIÐTÖKUR FÉKKSTU FRÁ ÞÍNUM NÁNUSTU ÞEGAR ÞÚ BYRJAÐIR Í SPORTINU?

Við heima erum öll mikið íþróttafólk svo ég fékk mikinn stuðning frá fjölskyldunni. Amma mín sem er 95 ára var þó frekar hissa til að byrja með og fannst ekki alveg passa að ég myndi fara að lyfta þungum lóðum, en með tímanum hef ég frætt hana aðeins meira um kraftlyftingar og að þetta sé öðruvísi en það var í gamla daga. Nú stundar fólk á öllum aldri lyftingar, bæði karlar og konur. Amma styður mig vel í dag og fylgist með öllum mótum og umfjöllun í kringum lyfingarnar hjá mér.

 

HVERJIR ERU ÞÍNIR STYRKLEIKAR OG ÁSTÆÐA FYRIR ÞESSUM GÓÐA ÁRÁNGRI?

Ég bý heldur betur að þeim góða grunni sem ég fékk í fimleikunum. Fimleikar er svo frábær grunnur fyrir hvaða íþróttir sem er, annars held ég að það sé ansi margt sem spili saman til að ná góðum árangri. Fjölskyldan mín og allir í kringum mig styðja mig ótrúlega vel, matarræðið skiptir miklu máli en ég reyni að borða bæði hollt og fjölbreytt, maður þarf að hlusta vel á líkamann sinn og haga æfingum eftir dagsformi og bara njóta.

 

HVERNIG ER HEFÐBUNDINN DAGUR Í ÞÍNU LÍFI?

Eins og staðan er núna er ég nýbyrjuð að vinna sem flugfreyja hjá Icelandair svo dagarnir mínir eru aðeins örðuvísi en þeir hafa oft verið. Ég byrja daginn yfirleitt á góðum morgunmat og kaffibolla. Ég reyni að taka æfingu annaðhvort fyrir eða eftir hádegi og fæ mér svo vel að borða þegar ég er búin. Gló er þar orðin stór partur af lífi mínu. Þá er ég vön að sitja fyrirlestra í Háskóla Íslands, þar sem ég stunda nám í Sálfræði. Seinni part dags þjálfa ég fimleika hjá fimleikadeild Gróttu sem mér þykir alveg ótrúlega gaman. Kvöldmaturinn heima hjá mömmu og pabba er svo afar mikilvægur partur af deginum. Kvöldin eru oft nýtt í lærdóm, vinkonuhitting eða annað skemmtilegt.

 

SKIPTIR NÆRINGIN ÞIG MIKLU MÁLI?

Næring skiptir mig miklu máli. Ég finn ótrúlegan mun á sjálfri mér þegar ég fæ næringarríkan og góðan mat. Matur er sú orka sem við fáum til að hafa með okkur inn í daginn. Maður á alltaf að reyna að borða hollt og fjölbreytt og þá sérstaklega þegar maður er í íþróttum.

 

TEKUR ÞÚ INN EINHVER BÆTIEFNI OG VÍTAMÍN? 
Ég reyni að halda öllu slíku í algjöru lágmarki, ég vil fá öll þau vítamín og steinefni sem ég þarf úr fæðunni, en auðvitað tek ég inn það sem mig vantar.

 

HVER ER UPPÁHALDS GLÓ STAÐURINN OG RÉTTURINN?
Laugavegurinn er í uppáhaldi hjá mér akkúrat núna og þá finnst mér best að fá mér kjúklinginn með hrísgrjónum undir, rauðbeðum, kartöflum og melónusalati. Ég fæ alveg vatn í munninn….

782715

Mynd af mbl.is – Tekin af Golla

 

ÁTTU ÞÉR EINHVERJAR FYRIRMYNDIR Í SPORTINU OG ÞAR FYRIR UTAN? 

Amma mín er frábær fyrirmynd, ég væri alveg til í að vera eins og hún þegar ég verð 95 !! En hvað varðar sportið að þá væri ég alveg til í að vera eins góð í bekkpressu og Jennifer Tompson sem á heimsmet í opnum flokki í klassískri bekkpressu í -63kg.

 

GÆTIR ÞÚ ÍMYNDAÐ ÞÉR AÐ GERA EITTHVAÐ ANNAÐ VIÐ LÍF ÞITT EN AÐ TENGJA ÞAÐ ÍÞRÓTTUM?

Eins og staðan er í dag er ég bara að njóta þess að vera í þessu á meðan ég hef gaman af því. Ég ætla mér að klára BS próf í sálfræði á næstu árum og fara í eitthvað framhaldsnám. Íþróttirnar verða örugglega alltaf frekar stór partur af lífinu mínu, en mér finnst mjög gott að taka bara enn dag í einu og svo sjá svo bara hvað gerist.

 

AÐ LOKUM, HVAÐA MARKMIÐ ERU FRAMUNDAN OG HVAÐ KEMUR Á EFTIR HEIMSMEISTARATITLI? 

Næst á dagskrá hjá mér er Evrópumót í bekkpressu sem er haldið hérna á Íslandi í ágúst. Það verður gaman að fá að keppa á alþjóðlegu móti á heimavelli. Það er kannski ekki hægt að vinna stærri titil en heimsmeistaratitil í opnum flokki, en það er hægt að setja sér ný markmið og verja þá titla sem eru komnir í hús. Titlar eru aldrei teknir af manni en það er ekki sjálfgefið að halda þeim ár eftir ár.


Við þökkum Fanneyju kærlega fyrir svörin og óskum henni góðs gengis með framhaldið.

ÁFRAM TEAM GLÓ!


Myndir: mbl.is – Ljósmyndarar Styrmir Kári og Golli

 

  • 20. júní, 2016
  • 0
Gló
Gló
Um höfund

Gló opnaði fyrsta veitingastaðinn árið 2007 í Listhúsinu. Í dag rekur Gló þrjá veitingastaði og heilsubar í Fákafeni. Solla Eiríks er matarhönnuður Gló og frumkvöðull í íslensku hollustufæði. Gló leitast eftir því að búa til mat sem hjálpar viðskiptavinum sínum að verða besta útgáfan sjálfum sér. Finndu þitt Gló!

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

GLÓARINN – LINDA BJÖRK
01. nóvember, 2019
GLÓARINN – KAREN ÓSK
29. október, 2019
FIMM RÁÐ FYRIR FERÐALAGIÐ
15. júní, 2018
GLÓARINN: Birgitta í Kaupmannahöfn
25. október, 2017
D-VÍTAMÍN fyrir heilsu og huga
19. október, 2017
Töfrar kombucha drykksins
24. september, 2017
GLÓARINN: TANJA ÖSP
24. júlí, 2017
10 HUGMYNDIR FYRIR GLÓANDI SUMAR
04. júlí, 2017
Glóarinn: Sara Kristín
06. júní, 2017