Avatar Höf. 

Heilbrigður skammtur af sjálfselsku


Eftir að hafa nýverið setið frábæran fyrirlestur hjá danska heilsugúrúinum Martin Bonde þá fór ég að hugsa um það sem hann sagði þar um heilbrigða sjálfselsku. Orðið er vanalega ekki notað í jákvæðu samhengi en hann telur að sjálfselska í réttu magni geti verið af hinu góða og mig langaði að kafa dýpra í það. Auðvitað eru til um þetta fyrirbæri önnur orð sem mögulega passa betur, sjálfsefling, sjálfsumönnun en mér finnst sjálfselska frekar mikið réttnefni hjá honum ef það er sett í nýtt og jákvæðara samhengi. Því það sem kemur í ljós, eða er kannski augljóst fyrir suma, er það að forgangsraða okkar eigin þörfum getur haft virkilega góð áhrif á heilsu okkar og vellíðan, metnað og sambönd okkar við annað fólk.


En af hverju eigum við að setja okkar eigin þarfir í forgang?

Vellíðan. 

Sjálfsefling og sjálfsumönnun er ekki tískubylgja. Að taka frá tíma sem þarf til að hlusta á okkar þarfir og gera þá hluti fyrir okkur sjálf er mikilvægt. En þá þurfum við líka að vera viss um að okkar dómgreind sé í góðu standi og að við séum að taka ákvarðanir sem eru raunverulega góðar fyrir okkur. En hvernig hlustum við? Mögulega með því að æfa sig í að sjá hvað er gott fyrir okkur í stóra samhenginu þegar teknar eru litlar ákvarðanir í dagsins önn.

Það að passa upp á að við fáum nægan svefn, næringarríkan mat, hreyfingu, slökun og einhverja skapandi iðju hjálpar okkur að halda streitu í lágmarki og getur virkilega bætt skap okkar og líkamlega heilsu. Stundum er sjálfselskan góða líka falin í öðruvísi hlutum eins og að hætta í slæmu sambandi eða að hætta umgangast fólk sem lætur þér líða illa. Sama í hvaða formi það er þá sendir þessi forgangsröðun sterk skilaboð til okkar sjálfra um að okkur finnist við vera þess virði. Og óvæntur afrakstur þess getur verið betra sjálfsálit og sjálfsvirði.

Starfsframi.

Margir telja sig þurfa að setja þarfir sínar til hliðar til að ná markmiðum í starfi. En í raun getur það að forgangsraða þínum þörfum framar vinnunni gert þig að betri starfsmanni og afkastameiri. Þá ertu betur í stakk búin/n til að takast á við streitu og þú verður ekki eins pirraður/pirruð við tilhugsunina um alla hlutina sem þú fórnar fyrir vinnuna. Því það getur farið mikil orka í það. Einnig eru minni líkur á kulnun í starfi þegar við hugsum betur um okkur sjálf.

Stundum er það besta sem við gerum fyrir starfsframa okkar að setja okkar þarfir í fyrsta sæti eins og að hætta í einu starfi fyrir betra tækifæri, jafnvel þó að það komi sér illa fyrir vinnuveitandann. Fólk er oftast skilningsríkara en við höldum og ef ekki þá er þetta líklega ekki vænlegt umhverfi til vaxtar.

Svo eins og með allt þá snýst þetta um að finna rétta jafnvægið.

Sambönd.

Það sem breytist ef við tökum frá nauðsynlegan tíma fyrir okkur sjálf er að líkurnar á að við látum stress bitna á þeim sem standa okkur næst minnkar töluvert. Þess vegna getur það að vera inn á milli „sjálfselsk“ gert okkur að betri og stuðningsríkari vinum, elskhugum og foreldrum. Að hugsa vel um sig sýnir einnig öðrum að það er hægt og það má og gefur öðrum von og kraft í að gera hið sama.

En hvernig getum við sett okkur í forgang þegar mikið er að gera? 

Setja athyglina á hverju við sleppum undir álagi. 

Þegar mikið er að gera eða mikil erfiði þá geta áhugamál, ástríður, líkamlega heilsa og þörf fyrir félagsskap verið það fyrsta sem við sleppum að gera eða hugsa vel um. Ef við viljum æfa okkur í að vera sjálfselsk á heilbrigðan hátt er gott að byrja á þeim hlutum sem við sleppum alltaf fyrst þegar mikið er að gera. Er það mataræðið sem fer illa, svefninn, hreyfing, ástríða sem situr á hakanum, andleg heilsa, hvíld, einvera, eða samverustundir með þínum nánustu? Áttu erfitt með að finna hvað það er? Spyrðu þá sem standa þér næst og athugaðu hvort þau hafi ekki hugmyndir um hvað það er sem þú setur á hakann.

Læra að segja nei (og líða vel með það)

Á MEÐAN VIÐ ERUM EKKI AÐ SÆRA AÐRAR MANNESKJUR ÞÁ ER ÞAÐ AÐ HUGSA UM OKKUR SJÁLF EITTHVAÐ SEM OKKUR Á EKKI AÐ LÍÐA ILLA MEÐ.

Að segja já við hlutum sem við erum ekki alltaf í stuði fyrir, eins og fjölskylduhitting eða að vinna frameftir er víst hluti af því að fullorðnast. Aftur á móti er mikilvægt að lesa í hvenær er mikilvægt að segja nei. Þó að það sé freistandi að afsaka sig þegar þú neitar ertu að segja fólki með því það sé eitthvað rangt við það. Á meðan við erum ekki að særa einhvern annan þá er sjálfsumönnun ekki eitthvað sem okkur á að líða illa yfir. Æfðu þig og sjáðu hvort að vinir og fjölskylda leyfi þér ekki bara að segja nei og standa við það.

Finna út hvað veldur

Við erum öll með ólíkar ástæður þess af hverju okkur finnst erfitt að setja okkur sjálf í fyrsta sætið. Kannski höfum við áhyggjur af hvað öðrum finnst, erum hrædd um að missa vini eða vinnur með því að setja okkar þarfir í fyrsta sæti.

Það er sjálfsvirðið sem truflar okkur við að setja eigin þarfir í forgang. Þess vegna er mikilvægt að æfa sig í þessu og taka ákvörðun daglega um að gera eitthvað fyrir okkur sjálf. Kannski hafa flest okkar ofmetið hversu skaðlegt það getur verið að fylgja eigin takti og á sama tíma vanmetið hversu hjálplegt það raunverulega er.

Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þessi heilbrigða sjálfselska sem Martin hefur trú á ekki um að skaða fólk í kringum okkur eða fara út í öfga, heldur finna heilbrigðan skammt af sjálfselsku. Það getur verið eins einfalt og að ákveða að hugsa jafnvel um okkur sjálf og við gerum við aðra, jafnvel að hugsa jafnvel um okkur sjálf og við myndum hugsa um lítið barn.

Góðar stundir

Dagný

  • 12. maí, 2017
  • 0
Avatar
Dagný Berglind Gísladóttir
Um höfund

Dagný er ritstýra tímaritsins Í boði náttúrunnar og vefstjóri Gló. Hún er með BA gráðu í ritlist og listfræði og MA í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands. Hún er mikið náttúrubarn, lærður jógakennari, í merki vatnsberans með ástríðu fyrir listum og heilsu.

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

BORÐAÐU BETUR – yfir daginn!
27. ágúst, 2017
GLÓARINN: TANJA ÖSP
24. júlí, 2017
Glóarinn: Sara Kristín
06. júní, 2017
Fastakúnninn – Ebba Guðný
30. maí, 2016
HIT æfingar heima í stofu – 10 mínútur!
21. maí, 2016
GLÓARINN – Kolbrún
12. maí, 2016
HANDBOLTI – RAGGI ÓSKARS
04. maí, 2016
TEAM GLÓ – Ragnheiður Sara
02. maí, 2016
PILATES – Helga Lind
14. mars, 2016