Avatar Höf. 

Jógaiðkun – heima í stofu


Mér finnst fátt betra en jógatími í notalegu umhverfi með fullt af fólki í svipuðum hugleiðingum og góðum jógakennara. Orkan sem myndast þegar margir gera jógaæfingar saman er dásamleg og leiðsögnin frá kennaranum dýpkar iðkunina. En þar sem ég er ekki alltaf í nálægð við jógastöð þegar ég er á flakki, eða kemst ekki alltaf í mína föstu tíma, þá hef ég búið mér til prýðis góða heimaiðkun sem dugar hvar og hvenær sem er. Ef ég sé smá glufu á dagskránni; sé það á hótel herbergi eða bara heima í stofu þá geri gjarnan jóga. Það felur gjarnan í sér lestur eða pælingar í jógafræðunum, hugleiðslu, pranayama/öndunaræfingar og asanas/jógaæfingar. En að koma slíkri iðkun á og gera hana reglulega getur verið meira en að segja það. Hér eru nokkur ráð sem hafa hjálpað mér að halda mér á mottunni:


1. SETJA NIÐUR JÓGAÁÆTLUN

Að búa til grófa jógaáætlun hefur reynst mér vel og að setja niður fasta punkta. Ég lærði sjálf jógakennarann og kom mér þá upp ágætri heimaiðkun en ég þarf samt sem áður góðan ramma til að setja iðkunina í forgang svo að hún lendi ekki á eftir öllum öðrum skyldum. Best er að ákveða hversu oft maður ætlar að iðka í viku og hvenær, annars rennur þetta auðveldlega út í sandinn. Mér hefur reynst best að velja nákvæmlega þá daga sem ég ætla að stunda jóga áður en ný vika hefst og finna staðgengilstíma ef ég missi úr.

Reyndu að ná þremur skiptum í viku til að byrja með, til að finna virkilegan mun á þér, andlega og líkamlega. Svo er nauðsynlegt hafa hugleiðslu og öndunaræfingar með í pakkanum, því jóga er ekki jóga án þess!


2. IÐKA Í HÆFILEGAN TÍMA

Margir jógatímar eru 75 mínútna langir og aðrir 90 mínútur. Ef þú reynir þetta ein/n heima þá muntu líklega missa móðinn. Án kennara og hvatningunnar sem fylgir því að sjá aðra halda út getur verið erfitt að gera meira en klukkutíma æfingu heima hjá sér. Þú ert einnig snekkri þegar þú ert ein/n, þar sem stór hluti jógatíma fer í útskýringar. Sjálf/ur, ættirðu að geta gert góða æfingu á rúmum þrjátíu mínútum.


3. VERA MEÐ TILBÚNA SERÍU

Ef þú mætir á mottuna með enga hugmynd um hvað þú ætlar að gera; seríu, kriyu eða sett af ákveðnum jógaæfingum tilbúnar þá gætirðu týnst af leið og hætt við. Vertu með ákveðið fyrirfram hvað þú ætlar að gera í dag, hvort sem það er myndband frá einhverjum kennara af youtube, eða fimm sólarhyllingar og nokkrar teygjur. Gott er að taka eftir því í leiddum jógatíma hjá kennara hvaða stöður og hugleiðslur tala til þín og láta þær fylgja með í heimaflæðinu.

Gott er að hafa uppbygginguna þannig að þú byrjar á að jarðtengja þig, gerir upphitun og öndunaræfingar, seríu af jógaæfingum og enda á slökun í Savasana og loks hugleiðslu.

Þegar þú ert komin/n vel af stað og veist að þú ert að fara að mæta á mottuna og kannt nokkra tíma utan af er gott að leyfa innsæinu að ráða för. Stundum langar mig að gera erfiðan ashtanga tíma og aðra daga langar mig í léttan youtube tíma með indælum kennara eða kundalini jóga með mikið af öndunaræfingum og möntrusöngi.


4. EKKI GERA OF ERFIÐAR STÖÐUR EIN/N

Mikilvægt er að fara sér ekki að voða og geyma erfiðustu stöðurnar, sem þú átt ennþá langt í land með að ná, fyrir leiddan jógatíma. Í jógatíma þá getur reyndur jógakennari hjálpað þér að nálgast stöður sem þú kemst ekki ennþá alveg í. Best er að reyna ekki við slíkar æfingar heima við því það getur valdið meiðslum ef þú gerir stöðuna rangt. Ef þér líður illa í jógastöðu eða ert ekki viss um að þú sért að gera hana rétt, slepptu henni þá.


5. AÐ HALDA ÁFRAM

Eins og með flest, þá gefur jóga mestu áhrifin og árangurinn með iðkun til langs tíma. Góðu fréttirnar eru að þú munt upplifa marga litla sigra á leiðinni. Í hvert skipti sem að þú mætir á mottuna, til þess að gera jógaæfingar og hugleiðslu muntu finna hvernig líkaminn þinn breytist, hugurinn róast og sálin nærist.


ÁHUGAVERÐIR KENNARAR Á YOUTUBE:

VINYASA FLOW: Yoga with Adriennne:  https://www.youtube.com/watch?v=iIHCWMplHsw

STRALA YOGA: Tara Stiles: https://www.youtube.com/watch?v=AQW-VL5f3NA

KUNDALINI: Guru Jagat: https://www.youtube.com/watch?v=zm5R86ZUcnU

ASHTANGA YOGA: Kino Mcgregor: https://www.youtube.com/watch?v=uUlmW18C9Tg

YIN YOGA: Sarah Beth: https://www.youtube.com/watch?v=-nCl2GY6esQ

HUGLEIÐSLA: Tara Brach: https://www.youtube.com/watch?v=y3TrGysWETw

MÖNTRUSÖNGUR OG KUNDALINI HUGLEIÐSLA: https://www.youtube.com/watch?v=QVBQhNwwvKY

PRANAYAMA ÖNDUNARÆFINGAR: https://www.youtube.com/watch?v=8VwufJrUhic


 

 

 

  • 19. september, 2016
  • 0
Avatar
Dagný Berglind Gísladóttir
Um höfund

Dagný er ritstýra tímaritsins Í boði náttúrunnar og vefstjóri Gló. Hún er með BA gráðu í ritlist og listfræði og MA í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands. Hún er mikið náttúrubarn, lærður jógakennari, í merki vatnsberans með ástríðu fyrir listum og heilsu.

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

Hvað er hláturjóga?
04. maí, 2017
Djúsað frá morgni til kvölds
01. febrúar, 2017
Glóandi jólagjafahugmyndir
19. desember, 2016
DIY – Namastei Sprei
05. desember, 2016
GLÓARINN: EVA DÖGG
30. nóvember, 2016
Heima í stofu: Morgunjóga
07. apríl, 2016
FASTAKÚNNINN: Sölvi Tryggvason
26. janúar, 2016
Ertu að sofa nóg?
13. nóvember, 2015
Leið til að kyrra hugann
22. október, 2015