Avatar Höf. 

Leið til að kyrra hugann


Þú hefur ábyggilega heyrt það margoft, hugleiðsla er góð til að vinna gegn streitu, komast til meðvitundar um eigin líðan og styðja við heilsusamlegan lífsstíl. En þegar dagskráin er pakkfull hljómar hugleiðsla eins og enn ein skyldan sem við þurfum að bæta við listann. Hvernig eigum við að hafa tíma til þess að sitja kyrr þegar það er alltaf nóg að gera?

Sífellt fleiri hafa tekið upp hugleiðslu til að róa hugann, vinna gegn stressi og auka einbeitingu, allt frá pólitíkusum til afreks íþróttamanna og framafólks í viðskiptalífinu. Það er einnig aukinn áhugi á að rannsaka áhrif hugleiðslu og í kjölfarið hefur komið í ljós að slík iðkun hefur jákvæð áhrif á háan blóðþrýsting, þunglyndi, kvíða og fleira.

En hvað er hugleiðsla?

Samkvæmt íslenskri orðabók er hugleiðsla skilgreind sem „djúp, kerfisbundin íhugun (oft tengd indverskum heimspekiviðhorfum)“ Hugleiðslu má útskýra sem huglæga þjálfun sem hjálpar okkur að komast í núið. Markmiðið með reglulegri iðkun er að verða friðsælli og kærleiksríkari einstaklingur.

Það eru til ótal gerðir af íhugun en margar þeirra eiga það sameiginlegt að þú situr í hljóði með lokuð augun, setur athyglina á öndun, notar möntrur, tónlist eða sérð eitthvað fyrir þér. Margar aðferðir hvetja einnig til þess að við reynum að halda okkur frá dómhörku á meðan hugleiðslunni stendur.

Rannsóknir eru nú að sýna fram á það sem jógar hafa vitað öldum saman, þegar við lærum að þjálfa hugann og beinum honum í betri farveg, þá verðum við opnari, blíðari, jarðtengdari og betur í stakk búin að takast á við þau verkefni sem lífið hefur í för með sér. Hugleiðsla snýst um að leita inná við, kynnast sjálfum sér betur og sleppa tökunum á gömlum mynstrum og sársauka.

Þrátt fyrir það sem fjölmiðlar hafa oft gefið til kynna þá er markmiðið ekki að sitja einhvers staðar á fjallstoppi með krosslagðar lappir og augun lokuð (þó að það hljómi vel), heldur frekar að læra að vera til staðar á öllum sviðum lífsins.

Og það góða við hugleiðslu er að það er einfalt að byrja, og það kostar ekki krónu. Með örlitlum breytingum á daglegum venjum getur þú búið til smá rými og byggt sterkan andlegan grunn sem þú getur treyst á alla ævi. Því eins og við vitum þá er lífið alltaf að breytast, fólk og hlutir koma og fara. En það getur engin tekið frá þér þína eigin iðkun og ávinninginn af henni.

Þú hefur tíma

Við erum flest upptekin og mörgum líður kannski eins og þeir nái varla að hitta vini og fjölskyldu hvað þá að hugleiða. Við ættum að skoða vandlega hvar við setjum orkuna okkar og athygli. Þegar við þrælum okkur út í vinnunni (á kostnað vellíðan) þá erum við að gefa alla okkar orku framanum, fjármálunum, eða yfirmönnum. Ef við eyðum deginum í að fara yfir rifrildi í huganum eða rifja upp sárindi þá fer orkan þangað. Eins og góð tilvitnun segir „where awereness goes, energy flows“.

En hvað ef, bara í nokkrar mínútur á dag, þú myndir velja að gefa þér þessa orku? Þegar við hægjum á okkur og hugsum betur um okkur sjálf þá eigum við meira til að gefa öðrum. Frá því sjónarhorni, þá hvet ég þig til að taka frá fimm mínútur reglulega og búa til þína eigin hugleiðsluiðkun. Þú hefur tímann, það er bara spurning um að forgangsraða og treysta því að þessi iðkun skili sér.

Byrjaðu þar sem þú ert

Það er til svo mikið að upplýsingum um hvernig best er að byrja að hugleiða að það eitt og sér getur valdið kvíða. Það er fullkomlega eðlilegt að finnast þú vera að hugleiða vitlaust, það upplifa flestir en er í raun algjör óþarfi, það er ekkert rétt og rangt. Hér er til dæmis einföld hugleiðsla sem hjálpar þér að byrja:

 • Sestu í stól eða á gólfið, þar sem er lítið af truflunum.
 • Stilltu skeiðklukku á 5 mínútur.
 • Lokaðu augunum ef þér finnst það þægilegt.
 • Settu athyglina á andardráttinn og andaðu djúpt inn og út um nefið.
 • Reyndu að halda athyglinni á andardrættinum en þegar þú verður var við hugsun, skoðaðu hana án þess að dæma og slepptu svo tökum á henni.
 • Ef þér finnst erfitt að halda athyglinni, hugsaðu þá „anda inn“ á innöndun og „anda út“ á útöndun.
 • Þegar klukkan hringir endaðu þá hugleiðsluna á því að finna til eitthvað eitt sem þú ert virkilega þakklát/ur fyrir
 • Endurtaktu þetta 2-3 sinnum í viku og bættu smám saman við dögum og mínútum við iðkunina.
 • Þegar þú sleppir úr degi eða dögum, jafnvel vikum, ekki berja þig niður fyrir það. Einfaldlega byrjaðu aftur.

Taktu því rólega

Það tekur tíma að þróa áfram hugleiðsluiðkun. Þú ætlast ekki til þess að setjast við píanó og geta spilað fallegt tónverk við fyrstu tilraun, er það nokkuð? Þú myndir líklega byrja á því að læra nokkrar nótur og bæta svo við þig smátt og smátt. Hugleiðsla þróast á svipaðan hátt: Það er best að byrja rólega og byggja á því. Það er enginn að drífa sig og enga efnislega endastöð að finna, þetta er allt innri vinna. Í hvert skipti sem þú iðkar þá ertu að leggja inn á hugleiðslureikninginn sem mun á endanum leiða til alls konar ávinninga, sem eru einstakir hjá hverjum og einum.

Haltu áfram að iðka

Ef þú tekur svo skrefið og byrjar að hugleiða, haltu þig við það. Stærsti ávinningurinn fæst með endurtekinni iðkun til lengri tíma. Líttu á hugleiðslu sem leið til að heyra í sjálfri/um þér á hverjum degi. Regluleg hugleiðsla eykur skýrleika í hugsun, gefur þér aukna orku og kemur jafnvægi á tilfinningar. Að hugsa sér!

En framar öllu þá hjálpar hugleiðsla okkur að vera í núinu og njóta þess. Það er ekkert að óttast hér og nú. Í stað þess að gera hugleiðslu af enn annarri skyldunni, hugsaðu um hana sem leiðina til að laða fram allt það besta í þér.

 • 22. október, 2015
 • 6
Avatar
Dagný Berglind Gísladóttir
Um höfund

Dagný er ritstýra tímaritsins Í boði náttúrunnar og vefstjóri Gló. Hún er með BA gráðu í ritlist og listfræði og MA í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands. Hún er mikið náttúrubarn, lærður jógakennari, í merki vatnsberans með ástríðu fyrir listum og heilsu.

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

BORÐAÐU BETUR – yfir daginn!
27. ágúst, 2017
Að draga úr vanlíðan eða efla vellíðan?
19. janúar, 2017
Jógaiðkun – heima í stofu
19. september, 2016
Bulletproof Reishi Mocha
03. ágúst, 2016
Kundalini jóga – Thelma Björk
07. júní, 2016
Að minnka eða hætta sykurneyslu
01. apríl, 2016
Undirbúningur fyrir maraþon
18. ágúst, 2015