Avatar Höf. 

Mantran þín 2016


Mér finnst gott að nýta áramótin í að fara yfir árið sem var að líða, minnast toppa og lægða, fagna áföngum sem ég náði og skoða hvað ég má gera betur. Mitt í þessum pælingum hlustaði ég á hlaðvarp með Grethcen Rubin sem ætlar að velja sér orð fyrir árið 2016, sem mér fannst vera prýðis góð hugmynd. Eins konar mottó eða mantra sem minnir mig á eitthvað ákveðið, áminning sem getur vísað mér á rétta braut þegar ég dett í sama gamla farið.

Hvort sem að þú ert búin að setja þér ótal markmið fyrir 2016 eða neitar að taka þátt í slíku, þá getur þetta verið gagnleg og skemmtileg æfing:

10665066_10152682975646211_862286250960980589_n

FINNDU ORÐIÐ: Góð leið til að finna möntruna þína getur verið að setjast niður með dagbók og skrifa frjálslega um allt og ekkert, um hvernig þú sérð fyrir þér árið framundan. Kannski kemur úr því setning sem passar fyrir 2016 eða kannski veistu nákvæmlega hver hún er. Þetta getur verið stakt orð, orðasamband eða setning, bara eitthvað sem þú vilt að sé í forgang á árinu eða veitir þér innblástur. Ekki stressa þig á að finna hina fullkomnu möntru, það er alltaf hægt að breyta og móta betur seinna.


GRAFÐU DÝPRA: Þegar þú ert búin að finna orðið eða möntruna sjáðu þá fyrir þér hvað það eða hún þýðir fyrir þig. Segjum að orðin þín séu „meira frelsi“ , sjáðu fyrir þér hvernig það getur birst í þínu lífi, teiknaðu jafnvel eitthvað eða skrifaðu í kringum orðin, eða notaðu pinterest til að setja myndir við orðin og lýsa því hvernig þér langar að koma frelsi í framkvæmd á árinu.


MINNTU ÞIG Á: Því meira sem þú sérð þessi orð, því betur manstu þau og því líklegri ertu að vinna að því. Skrifaðu orðin í dagbókina þína, settu þau sem bakgrunn á símann eða í tölvuna eða búðu til fallega mynd og hengdu þau upp á vegg.


DEILDU ÞVÍ: Fáðu fjölskyldumeðlim, vinkonu eða vin með þér í lið og gerið þetta saman. Það er gott að einhver viti af ásetningi þínum og minni þig á hann þegar líður á árið.


Vonandi nýtist þetta ykkur vel. Mér fannst skemmtilegt ferli að velja mér orð/möntru/mottó fyrir árið framundan og get sagt ykkur að það er strax farið að nýtast mér!

Orðin mín fyrir árið eru að „skapa meira“. Gefa mér meiri tíma til að sinna mínum ástríðum og áhugamálum og sjá hvert það leiðir mig.

Gleðilegt og gæfuríkt nýtt ár!

Dagný

  • 3. janúar, 2016
  • 2
Avatar
Dagný Berglind Gísladóttir
Um höfund

Dagný er ritstýra tímaritsins Í boði náttúrunnar og vefstjóri Gló. Hún er með BA gráðu í ritlist og listfræði og MA í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands. Hún er mikið náttúrubarn, lærður jógakennari, í merki vatnsberans með ástríðu fyrir listum og heilsu.