Helga Arnardóttir Höf. 

Styrkleikar og andleg vellíðan


Öllum langar okkur til að vera besta útgáfan af okkur sjálfum og að standa okkur vel í því sem við tökum okkur fyrir hendur. Við leitumst oft við að bæta okkur með því að einblína á vankanta okkar og það sem illa gengur og leita leiða til þess að laga það eða bæta. Það getur verið gagnlegt að vera meðvitaður um það sem betur mætti fara hjá okkur en ég held að það eitt og sér að lappa upp á eða bæta það sem illa gengur leiði ekki til þess að við verðum besta útgáfan af okkur. Við getum nálgast þessa sjálfsvinnu frá hinum endanum líka með því að greina það sem við höfum okkur nú þegar til framdráttar og unnið að því að efla það enn frekar. Ég er ekki að tala fyrir því að við hundsum veikleika okkar og einblínum bara á styrkleikana. Ég tel gagnlegast að vera meðvituð um bæði veikleika okkar og styrkleika og að vinna með hvort tveggja en ég tel að við einblínum oft meira á veikleikana okkar og því sé þörf á að beina aukinni athygli að styrkleikum.

Við notum öll styrkleika daglega í þeim verkefnum sem við tökumst á við í daglegu lífi eins og þrautsegju, sjálfstjórn, skipulagshæfni, kærleika og þolinmæði. Aðstæður okkar eru mismunandi og krefjast ólíkra hluta af okkur og við ræktum gjarnan með okkur þá styrkleika sem nýtast okkur best í þeim aðstæðum sem við búum við. Auk þeirra styrkleika sem við ræktum með okkur telja margir fræðimenn að við séum með ákveðna kjarnastyrkleika sem einkenna persónuleika okkar og séu í raun hluti af því hver við erum í okkar dýpsta kjarna. Þessir kjarnastyrkleikar gefi okkur aukna orku og vellíðan þegar við notum þá og geti hjálpað okkur að finna fyrir meiri tilgangi, þegar við náum að nýta þá í daglegu lífi. Það eru til ýmsar leiðir til þess að greina þessa kjarnastyrkleika, meðal annars með því að taka styrkleikapróf eða leita til ráðgjafa sem hafa sérhæft sig í að greina styrkleika einstaklinga. Rannsóknir benda til þess að það eitt og sér að átta sig á helstu styrkleikum sínum auki andlega vellíðan í skamman tíma en að þegar við förum að nota þá í daglegu lífi, getum við upplifað aukna ánægju og andlega vellíðan til lengri tíma. Rannsóknir benda líka til þess að þegar fólk fer að nota kjarnastyrkleika sína í vinnunni, upplifi það aukna starfsánægju og finni fyrir meiri tilgangi í vinnunni.

Á námskeiðinu Styrkleikar og andlega vellíðan: námskeið og ráðgjöf, sem haldið verður í Gló Fákafeni næsta þriðjudag (18.10) verður fjallað um andlega vellíðan og heilsu, fjallað um tengsl styrkleika við andlega vellíðan og farið yfir leiðir til þess að átta sig á helstu styrkleikum sínum. Þátttakendur taka svo styrkleikapróf heima og mæta í kjölfarið í einkaráðgjöf til Helgu þar sem kafað verður dýpra í styrleika og lífsgildi hvers og eins og ræddar leiðir til þess að nýta þá meira í daglegu lífi og lifa í auknu samræmi við eigin lífsgildi .

SKRÁNING Á NÁMSKEIÐIÐ STYRKLEIKAR OG ANDLEG VELLÍÐAN HÉR

  • 10. nóvember, 2016
  • 1
Helga Arnardóttir
Helga Arnardóttir
Um höfund

Helga er með BA-gráðu í sálfræði frá Háskóla íslands, MSc-gráðu í félags- og heilsusálfræði frá Maastricht University og diplomagráðu á mastersstigi í jákvæðri sálfræði frá EHÍ. Hún starfaði á Kleppi í 6 ár en vinnur nú við fræðslu og ráðgjöf um andlega heilsu og vellíðan. Helga hefur mikla ástríðu fyrir andlegri heilsueflingu og fyrir því að finna skapandi leiðir til þess að miðla hagnýtum og gagnreyndum aðferðum sálfræðinnar til þess að bæta líf og líðan fólks. Hún er höfundur hamingju-appsins Happ App sem heldur utan um æfingar sem notendur getur gert til þess að efla andlega heilsu og hamingju. Nánari upplýsingar um Helgu og jákvæða sálfræði má finna á heimasíðunni www.andlegheilsa.is

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

Hvað er það besta við þig?
10. nóvember, 2017