Gló Höf. 

TEAM GLÓ – MARÍA ÖGN


Gló styður við og fæðir hóp af afreksfólki sem setur markið hátt og veit að mataræði skiptir sköpun til að ná árangri. Mánaðarlega munum við birta viðtal við meðlim Team Gló hér á blogginu og byrjum við á engri annarri en Maríu Ögn Guðmundsdóttur hjólreiðarkonu og hjólaþjálfara. Hún er búin að vera meðlimur Team Gló í þrjú ár og hefur á þeim tíma náð frábærum árangri í hjólreiðum og einnig átt stóran þátt í þróun sportsins á Íslandi, til dæmis með því að vera framkvæmdarstýra WOW cyclothon og sem hjólaþjálfari. Við heyrðum í Maríu Ögn þar sem hún var stödd á æskuslóðum, Ísafirði, í allsherjar skíðagöngugleði með 35 öðrum konum.

Hvenær fórstu fyrst að æfa íþróttir?

„Ég er fædd og uppalin á Ísafirði, flutti reyndar aðeins til Hvammstanga en byrjaði hér á Ísafirði í íþróttum 7 ára og fór að prufa allt sem var í boði hér. Skíðin urðu mín aðalíþrótt, alpagreinarnar þá sérstaklega og ég æfði skíði til tvítugs. En ég hef semsagt verið í íþróttum frá sjö ára aldri.“

Hvað langaði þig að verða þegar þú yrðir stór?

„Það blundaði nú í mér að verða veðurfræðingur, mér fannst veður svakaleg merkilegt.“

Í hverju ertu menntuð?

„Háskólamenntunin mín er sálfræði frá HÍ, ég er síðan búin að taka alls konar annað tengt því, eins og hugræna atferlismeðferð og íþróttasálfræði sem og ýmiss önnur námskeið hjá HÍ, HR og Endurmenntun í sálfræðitengdum greinum. Ég tók einkaþjálfaranámið hjá ÍAK sem er sjúkraþjálfaramiðað nám með áherslu á styrktarþjálfun. Hef einnig tekið nokkur ÍSÍ þrep í þjálfun og svo á ég langan lista af námskeiðum sem ég hef tekið tengt íþróttum, þjálfun og sálfræði.“

Þannig að þú varst á skíðum frameftir aldri?

„Til tvítugs, þar til ég flutti suður og var yfirþjálfari hjá skíðadeild KR í sjö ár.“

Hvernig kom það til að þú fórst að hjóla?

„Ég var búin að vera á fullu í Boot camp, golfi og ýmsu sem mér datt í hug en þegar ég var ólétt árið 2007 þá sá ég að það var til Þríþrautarfélag Reykjavíkur sem mér fannst spennandi. Ég gaf mér því verðlaun fyrir að hafa verið ólétt og keypti mér flott hjól og hellti mér í þríþrautina. Úr þríþrautinni fór ég svo smátt og smátt að hjóla meira, var valin í landsliðið og fór þá meira bara inn í hjólreiðarnar.“

Hvað gerðist svo, tóku hjólreiðar yfir líf þitt?

„Jú hjólreiðarnar eru búnar að yfirtaka líf mitt síðustu árin. Ég er sjálf að æfa og keppa á fullu, síðan hef ég verið að þjálfa og halda námskeið og fyrirlestra í hjólreiðum fyrir einstaklinga, hópa og fyrirtæki og er með hjolathjalfun.is. Ég starfaði sem viðburðarstjóri hjá WOW air og var framkvæmdastjóri WOW Cyclothon keppninnar og skrifaði reglurnar og fyrirkomulag þeirrar keppni. Ég hætti hjá WOW 2015 og fór að einbeita mér að hjolathjalfun.is og fór að vinna í hjólreiðaversluninni Erninum samhliða því, kærastinn minn og hjólarinn Hafsteinn Ægir vinnur einnig í Erninum. Ég hef einnig verið að fara með ferðamenn í hjólaferðir innanlands og nú einnig erlendis. Þannig að áhugamálið, vinnan og kærastinn snýr allt að hjólreiðum, er maður þá ekki bara atvinnumanneskja í hjólreiðum þegar allt snýst svona um hjólreiðar?“

10540848_10152616088993628_1611898701315832964_n

Hverjir eru styrkleikar þínir á hjólinu?

„Ég er frekar tæknilega góð á hjólinu. Grunnur minn í íþróttum eru skíðin og æfingar fyrir skíðamenn eru mikið samhæfing, snerpa og styrkur og með þeim æfingum lærir maður mikið á líkamann og fær góða líkamsvitund. Þær æfingar hafa skilað mér því að ég á auðvelt með að stjórna skrokknum á mér í því sem ég geri. Ég er einnig með mjög mikið keppnisskap og þyrstir mikið í adrenalínið sem þessu fylgir.“

Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?

„Hann er mjög fjölbreyttur. Núna er ég á Ísafirði og á þriðjudaginn verð ég með hóp að hjóla á Tenerife fyrir Úrval Útsýn og svo aðra ferð bara fyrir konur til Mallorca í maí. Ég er að plana viðgerðarnámskeið fyrir hjól og einnig námskeið í öndun fyrir íþróttafólk byggt á hugmyndafræði fríköfunar. En hver dagur snýst um að vera í sambandi við fólk, þjálfa, fjarþjálfa, vera með hópa á æfingum, skipuleggja námskeið og svo er ég núna að undirbúa vorið. Þannig að þegar ég byrja með námskeið og þjálfun úti í apríl, þá verð ég til í slaginn.“

Hvaða mistök sérðu oft vera gerð í íþróttum og hreyfingu ýmiss konar?

„Þú átt að gera það sem þér þykir skemmtilegt, ekki fara á æfingu sem þér þykir leiðinleg, það er svo margt í boði, um að gera að prófa og finna út hvað hentar þér og nærir þig á líkama og sál. Einnig er of mikið um það að fólk sé að miða sig við aðra, er ekki taka tillit til þess hvernig þeirra daglega líf er. Það eru mismunandi heimilisaðstæður og vinnuálag. Það er allt í góðu að hafa annað fólk til hliðsjónar og fylgjast með því hvað aðrir gera en ekki leyfa því að taka yfir og finnast endalaust að það sem þú gerir sé ekki nóg miðað við aðra, muna að vera ánægð/ur með það sem þú gerir og bæta við ef tími og orka leyfir. Þessar almenningsíþróttir eins og fjallgöngur, hlaup, hjólreiðar og gönguskíði eru hvað vinsælastar hjá fólki á þeim aldri sem eru með fjölskyldur og á fullu í vinnu, þú verður að taka tillit til aðstæðna til að fara þér ekki um of.“

Skiptir næringin þig miklu máli?

„Já að sjálfsögðu. Ég borða mjög hollt og á svona frekar auðvelt með það því ég veit hvað það gerir gott fyrir mig og mér líður betur. Eftir að hafa verið íþróttamanneskja í svona mörg ár að þá skiptir næring svo miklu máli til að ná þeim markmiðum sem maður stefnir að og því er hollt mataræði mjög eðlilegt fyrir mér. Maður verður meðvitaður um það hvernig líkaminn fúnkerar og ég finn alveg fyrir því hvernig hann verður verri þegar næringin er ekki rétt. Ég borða nú samt bara það sem mig langar í, en það sem mig langar í er yfirleitt hollt þó ég að sjálfsögðu bregði út af því. Samsetningin í mat hjá mér er eflaust oft furðuleg en markmiðið er yfirleitt bara það að ná réttum næringarhlutföllum fremur en að maturinn sé ægilega góður eða gómsætur. Hinsvegar er það svo frábært að Gló er með góðan og gómsætan mat og vandar sig í því að hafa rétt næringarhlutföll og gott hráefni og því borða ég mjög mikið þar og fæ eiginlega bara Gló-skilnaðakvíða ef það líður of langt á milli.“

og tekur þú inn einhver bætiefni?

„Já, ég fæ mér magnesíum, svo þurfa konur í mikilli þjálfun aukalega járn og því drekk ég rauðrófusafa alla daga, ég tek b12 og lýsi og fæ mér svo turmerik reglulega þegar mikið gengur á í æfingum og keppni.“

Hvernig er morgunrútínan?

„Dagarnir eru svakalega misjafnir og því engin sérstök rútína en morgunmaturinn er berrasaður hafragrautur úr tröllahöfrum, læði samt mjög oft skeið af nutella út í grautinn.“

Gætir þú ímyndað þér að gera eitthvað annað við líf þitt en tengja það íþróttum?

„Nei, það væri bara ekki hægt, íþróttir eru bara svo frábærar sama hvernig þú stundar þær og í hvaða tilgangi sem er. Ég velti því oft fyrir mér hvernig fólk fer að ef það hefur ekki íþróttir samferða sér og fjölskyldunni í lífinu.“

Hefur sálfræðin nýst þér vel í sportinu?

„Já algjörlega. Þegar unnið er með andlegu hliðina samhliða hreyfingu verður til fullkomið kombó og möguleikarnir á að ná markmiðum sínum sama hver þau eru margfaldast. Sama á við að þegar andlega hliðin er ekki í lagi þá gengur yfirleitt ekkert upp þó skrokkurinn sé í þokkalegu standi. Ég hef mikið unnið með sálfræðina samhliða þeirri þjálfun sem ég hef unnið við.“

10426533_10152528129623628_1118073406515255670_n

Hvernig undirbýrðu þig fyrir keppni eða mót?

„Ég geri hjólið klárt, það þarf að vera í toppstandi og hreint sem mér finnst vera ákveðin virðing við hjólið. Svo skoða ég að sjálfsögðu brautina og undirbý mig fyrir þessa ákveðnu keppni. Með mataræði þá borða ég bara eins og ég er vön, passa betur upp á að borða reglulega og fylgist með því að ég sé að drekka nægilegt vatn dagana fyrir keppni.“

Snúast æfingar þínar bara um hjólreiðar eða leggur þú áherslu á eitthvað annað meðfram?

„Ég er styrktarþjálfari og geri ávallt styrktaræfingar. Það er mjög nauðsynlegt að þjálfa alla vöðva líkamans svo skrokkurinn haldist uppréttur þar til þú leggst í gröfina og einnig til að fyrirbyggja meiðsli og annað vesen. Árið skiptist upp í tímabil, ég er að lyfta þungt, geri styrktaræfingar æfi snerpu og samhæfingu, ég syndi, hleyp, geng á fjöll og fer á skauta. Ég hjóla mis mikið yfir árið, en ég vill njóta vetursins og nýti hann hvað mest á gönguskíðunum, enda skíðagangan góð þolíþrótt sem notar vöðva líkamans á svo heilbrigðan hátt.“

Að lokum, hvað viltu leggja mörkum sem hjólaþjálfari?

„Markmið mitt með námskeiðunum og annarri fræðslu hjá hjolathjalfun.is er að fólk kynnist hjólreiðunum á réttann hátt, hvað hjólreiðarnar hafa upp á svo margt að bjóða fyrir alla. Að einstaklingurinn verði öruggari með sjálfan sig og gagnvart öðrum á hjólinu, kunni að nota græjurnar. Ég hef mjög gaman af því að þjálfa og hef staðið fyrir mörgum viðburðum fyrir konur, til að efla konur til hjólreiða eða annarskonar hreyfingar, að konur og að sjálfsögðu menn eigi sér heilsusamlegt áhugamál og hreyfi sig saman.“

HELSTI ÁRANGUR MARÍU UNDANFARIN ÁR:

  • Kjörin þríþrautakona ársins árið 2009
  • Hjólreiðakona ársins ársins 2010, 2012, 2013, 2014
  • Margfaldur Íslandsmeistari og bikarmeistari í fjallahjólreiðum, götuhjólreiðum og fjallabruni.
  • Keppt tvisvar sinnum á Smáþjóðaleikum fyrir Íslands hönd og einnig götuhjólakeppnum í Danmörku.
  • Unnið Bláa lóns keppnina sex sinnum og á besta tíma kvenna í þeirri keppni 1.klst og 55 mín.

FYLGSTU MEÐ MARÍU ÖGN OG HJÓLAÞJÁLFUN.IS HÉR

  • 16. febrúar, 2016
  • 1
Gló
Gló
Um höfund

Gló opnaði fyrsta veitingastaðinn árið 2007 í Listhúsinu. Í dag rekur Gló þrjá veitingastaði og heilsubar í Fákafeni. Solla Eiríks er matarhönnuður Gló og frumkvöðull í íslensku hollustufæði. Gló leitast eftir því að búa til mat sem hjálpar viðskiptavinum sínum að verða besta útgáfan sjálfum sér. Finndu þitt Gló!

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

GLÓARINN – LINDA BJÖRK
01. nóvember, 2019
GLÓARINN – KAREN ÓSK
29. október, 2019
FIMM RÁÐ FYRIR FERÐALAGIÐ
15. júní, 2018
VIÐTAL VIÐ HLAUPARANN ARA BRAGA
29. október, 2017
GLÓARINN: Birgitta í Kaupmannahöfn
25. október, 2017
D-VÍTAMÍN fyrir heilsu og huga
19. október, 2017
Töfrar kombucha drykksins
24. september, 2017
GLÓARINN: TANJA ÖSP
24. júlí, 2017
10 HUGMYNDIR FYRIR GLÓANDI SUMAR
04. júlí, 2017