Gló Höf. 

VIÐTAL VIÐ HLAUPARANN ARA BRAGA


Íslandsmethafinn og sprett­hlaup­ar­inn Ari Bragi Kára­son (f. 1989) hefur komið víða við. Hann starfar sem trompetleikari og dóm­ari í nýj­um þátt­um á Stöð 2 sem kallast „Kór­ar Íslands“, þegar hann er ekki á hlaupaæfingu. Við tókum viðtal við þennan magnaða íþrótta- og tónlistarmann sem er fullur af innblæstri og drifkrafti, en við erum heppin að hafa hann í TEAM GLÓ, sem er hópur afreksíþróttafólks sem Gló stendur við bakið á.aribragividtal

Þú ert menntaður og starfandi tónlistarmaður, en hvort kom á undan íþróttirnar eða tónlistin?

Tónlistin. Ég er búin að vera að æfa á hljóðfæri síðan ég var krakki. Pabbi minn var skólastjóri í tónlistarskóla þannig að ég fæddist eiginlega á lúðrasveitaæfingu. Hafði ekkert um þetta að segja, þetta átti bara að gerast og búið að fylgja mér alla tíð.

Og þú velur hvaða hljóðfæri?

Trompet, ég er trompetleikari. Ég flyt til Bandaríkjana þegar ég er 18 ára, fer í háskóla í þar og kem svo heim þegar ég er 23 ára. Var þá komin með annan fótinn inn í hreyfingu líka.

Hvenær og hvar byrjaði áhuginn á íþróttum og hreyfingu?

Þegar ég var tvítugur. Það er mikið keppnisskap í fjölskyldunni og karlarnir pabba meginn eru svakalega miklir „alpha males“, og ég upplifði sjálfan mig út í New York, bara í gjörsamlega engu líkamlegu formi og frekar ósáttur með mína burði. En ég vissi að ég væri með þetta arfgenga keppnisskap þannig að ég ákvað bara að koma mér í form. Og þá var ekki aftur snúið.

Þú byrjaðir þá í hvaða íþrótt?

Ég byrjaði bara á að vera dálítið ansalegur inn í gymminu, vissi ekkert hvað ég var að gera. Og svo rambaði ég óvart inn á Crossfit æfingu og féll alveg fyrir því. Þá fékk ég þvílíka bakteríu fyrir Crossfit, af því að það var svo fáránlega erfitt og mér fannst það frábær áskorun. Ég upplifði það að í hvert skipti sem ég gekk inn á Crossfit æfingu þá var eitthvað nýtt í gangi. Svo eftir mikla ástundun í Crossfit árið 2013 fékk ég dáldið leið á því og langaði að fara eitthvað lengra. Ég var tónlistarmaður í fullu starfi og gat ekki sett 100% metnað í Crossfittið. Svo að ég fór að skoða hvað annað væri í boði.

En hvar hófst hlaupaferillinn?

Ég vissi alltaf að ég hlypi hratt, en kannski ekki alveg jafn hratt og kom í ljós. Þannig að ég fór á frjálsíþróttaæfingu. Pabbi var mikill frjálsíþróttamaður og ég ólst upp við að Ólympíuleikarnir væri bara heilagur tími. Allir að horfa saman heima. Ég byrjaði að fara á ÍR æfingu þar sem ég þekki Kára Stein mjög vel og hann var þar þá. Ég sendi honum línu hvert á ég að mæta og hvað á ég að gera og hann mætti með mér á fyrstu æfinguna. Þetta var árið 2013, sama ár og ég kem heim frá Bandaríkjunum og þá fékk ég mikla ástríðu fyrir hlaupum. En svo í janúar 2014 þá ákvað ég að hætta í Crossfit og bara einbeita mér að hlaupinu. 100 og 200 m spretthlaupi.

Þú fórst fljótlega að ná miklum árangri og settir svo Íslandsmet í fyrra ekki satt?

Jú, síðasta sumar (2016) setti ég Íslandsmet og svo bætti ég það aftur í sumar. Tilfinningin var ótrúleg og magnað hvað ég er búin að fá mikið út úr því. Alls kyns dyr opnuðust við að setja einhvers konar met. Sem er ótrúlega magnað. Þetta er búin að vera skemmtileg vegferð og hefur opnað á það að ég geti virkilega einbeitt mér að þessu.

Hvernig eru æfingar þínar yfir árið?

Þær eru mjög fjölbreyttar og byggjast á tímabilum. Í ágúst er keppnistímabil. Þá er maður að keppa í góðum aðstæðum og þá er lítið af æfingum, varla æft neitt bara verið að halda sér ferskum. Nokkrum sinnum viku fer ég á mjög létta æfingu með engum átökum og svo er keppt með 120% átökum. Svo í október þegar keppnistímabilið er búið þá er rosalega mikil vinna sett inn og byrjar tímabil sem kallast uppbyggingartímabil. Þá er farið í brekkurnar og maður fær alveg æluna í hálsinn. Þá ertu að mynda undirstöðu, þá ertu að styrkja hlaupahreyfingar og þig allan til þess að geta náð á keppnistímabilinu þessum örlitla, örlitla betri árangri heldur en síðast. Því þá er hreyfingin þín orðin sterkari. Styrktarlega séð þá er ég í klefanum með stöngina að styrkja mig og halda mér í góðu líkamlegu ástandi. Spretthlaup er í kjarna sínum bara hversu mikinn kraft þú getur sett í hvert einasta skref.  Og svo geri ég mikið af æfingum sem eru til þess að ég meiðist ekki. Hlaup reynir mikið á liðina og sinarnar og það er mikilvægasta af öllu að vera heill.

aribragifvidtal

Heldur þú að tónlistin hafi gefið þér aukna þolinmæði og þann mikilvæga eiginleika að vera tilbúin til þess að æfa sig til að verða góður?

Já, mögulega. Ég hef fínan fókus og finnst gott að demba mér út í smáatriði. Sem tónlistarmaður þrífst ég á smáatriðum. Þess vegna á hlaup kannski svona vel við mig. Sjálf keppnin er bara í nokkrar sekúndur en allt árið er undirbúningurinn, eins og að undirbúa sig fyrir tónleika. Tónlistin kenndi mér líka að sjá hvað hlaupið getur verið mikil listgrein. Hvað hreyfifræðin í hlaupinu er mikil list það að mastera listgrein tekur ótrúlega mikinn tíma og mikla ástríðu til þess að skilja hana. Og ég hef það kannski framyfir marga að vilja tileinka mér og skilja virkilega djúpa hlutann af hreyfifræðinni í spretthlaupinu. Eitthvað eins og þjálfari minn sem er búin að vera í þessu sporti í 45 ár er sammála mér um, okkur finnst þetta jafn fallegt og við náum tengingu þar. Þar kemur listamaðurinn upp í mér.

Hefðbundinn dagur í þínu lífi?

Það er nefnilega málið. Það er enginn hefðbundinn dagur í mínu lífi. Verandi atvinnutónlistarmaður og íþróttamaður þá er maður bara að púsla þessu saman á hverjum degi og láta hlutina ganga upp saman. En jú það eru einhverjir fastir punktar. Ég reyni náttúrulega að borða mjög skynsamlega og reglulega. Og bæði rétt fyrir æfingu og rétt eftir æfingu. Ég reyni að hugsa mikið um næringarfræðina. Fyrir æfingu er ég tiltölulega lár í kolvetnum og eftir æfingu er ég hærri í kolvetnum. Ég reyni að borða alltaf góðan morgunmat og reyni að duga á honum sem lengst. Svo er ég mjög duglegur að borða á Gló það er góður og hollur skyndibiti þegar maður hefur lítinn tíma, sem er nokkuð algengt. Svo er ég alltaf að takast á við ný verkefni. Maður reynir að halda sér í rútínu hvað varðar íþróttirnar því þær kalla á rútínu. Ég þarf að viðhalda jafnvægi þar og svo halda svo sveigjanleika í tónlistinni. Svo þarf ég líka tíma að æfa mig á hljóðfærið mitt. Ég er oftast að reyna að juggla þessum tveimur boltum.

Hefur þú hallast að einhverri ákveðinni stefnu í mataræðinu?

Ég held ég hafi farið allan skalann, nema hef aldrei verið alveg vegan. Það er eitthvað í mér sem þorir því ekki. Þar sem ég reiði mig mikið á egg. Og ég hef ekki tímann í það, held að það krefjist smá tíma. Ég mynda segja að ég sé 80% on og 20% off þar sem ég leyfi mér að fara út af matarplaninu. Ég borða ekki neitt pasta eða unnar kornvörur, ég reyni að láta brauð vera eins mikið og ég get. Og sykur er í algjöru lágmarki og sama sem engar mjólkurvörur. Þetta er fyrirbyggjandi útfrá bólgumyndun í líkamanum. Á æfingu ertu í raun og veru að eyðileggja eitthvað í líkamanum. Og svo er það líkamans verk að byggja það aftur upp og gera það sterkara og betra. Það hefur alltaf verið ætlunarverk mitt að hjálpa til við þetta ferli líkamans eins og ég get með góðri næringu.

Tekur þú inn einhver bætiefni?

Já en lítið. Ég tek alltaf inn ZMA áður en ég fer að sofa. Sem er zink, magnesíum og B-vítamín. Mér finnst það hjálpa mér mikið við að ná að slaka á eftir stressandi daga og þá dreymir mig mjög mikið. En svo tek ég á vetrarmánuðun alltaf D-vítamín. Annars er ég lítið í öðru.

Hvernig undirbýrðu þig fyrir keppni eða mót?

Það fer eftir því klukkan hvað ég er að keppa yfir daginn. Tökum sem dæmi að það sé mót kl 18:00 þá borða ég morgunmat klukkan átta og tvær hnetusmjörsskeiðar í hádeginu og svo er ég að fasta þangað til mótið hefst. Þetta er vegna þess að mér hefur fundist að ef ég er svangur þá er ég smá grimmur og verð aðeins agressívari en venjulega. Auðvitað er ég að reyna að kreista fram öll möguleg sekúndubrot sem ég hef. Það hefur virkað fyrir mig. Svo er annað sem hefur virkað vel fyrir mig sem ég er ekki viss að margir séu að vinna með en það er að ég læt koffín alveg vera tveimur dögum fyrir keppni. Passa mig að fara ekki einu sinni í dökkt súkkulaði eða neitt. Svo fæ ég mér smá koffín fyrir keppni og þá virkar það miklu betur en ef ég væri búin að vera að sulla í kaffi eða te með koffíni. Svo að ég láti nú upp öll leyndarmálin…. (hlær).

Hvað finnst þér margir klikka á í undirbúningi fyrir átök?

Að gera eitthvað nýtt rétt fyrir keppni. Að hafa heyrt að einhver geri eitthvað og svo ætla að gera það fyrir átök og allt fer í köku og svo skilur þú ekkert í þessu. Það eru svo margir sem ætla að fara í maraþon og daginn áður borða rosalega mikið af pasta af því að þau heyrðu að það væri sniðugt og skilja svo ekkert í magaverkjunum daginn eftir. Fyrir keppni og hámarksátök er mikilvægt að vera eins mikið inn í norminu og maður getur. En það er samt mikilvægt að þróa sig áfram og finna hvað virkar best fyrir sig, bara ekki rétt fyrir mót.

En með næringuna, hvað eru algenb mist0k?

Að skoða ekki nægilega vel hvað þeir þurfa, taka einhverju sem þeir lesa sem sannleik en kannski á það ekki við þig. Mikilvægt er að taka út ákveðna fæðuflokka og bæta þeim svo rólega aftur inn því það segir manni margt. Ég var til dæmis algjör AB-mjólkurfíkill. Svo tók ég allar mjólkurvörur út og það fyrsta sem ég prufaði eftir bindindið var AB-mjólk og ég hef eiginlega ekki snert hana síðan, maginn á mér höndlaði hana ekki.

Getur þú ímyndað þér lífið án spretthlaupsins?

Já, já, ég get alveg ímyndað mér það. En ég tími ekki að ímynda mér það alveg strax. Mig langar að sjá hversu langt ég get komist í hlaupinu og er að setja markið hátt með það. Aldurinn verður á einhverjum tímapunkti faktor fyrir þetta.

Hvert er svo stóra markmiðið í hlaupinu?

Að komast á Ólympíuleikana 2020 í Tókýó. Það er bara þannig. Og eftir það leggja skóna á hilluna á toppnum!

ari

  • 29. október, 2017
  • 0
Gló
Gló
Um höfund

Gló opnaði fyrsta veitingastaðinn árið 2007 í Listhúsinu. Í dag rekur Gló þrjá veitingastaði og heilsubar í Fákafeni. Solla Eiríks er matarhönnuður Gló og frumkvöðull í íslensku hollustufæði. Gló leitast eftir því að búa til mat sem hjálpar viðskiptavinum sínum að verða besta útgáfan sjálfum sér. Finndu þitt Gló!

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

Undirbúningur fyrir maraþon
05. ágúst, 2019
Fastakúnninn: Þórunn Antonía
17. janúar, 2017
FASTAKÚNNINN: HÖSKULDUR GUNNLAUGSSON
15. apríl, 2016
TEAM GLÓ – MARÍA ÖGN
16. febrúar, 2016
Taekwondo – Helgi Rafn
04. febrúar, 2016
Hamraðu járnið!
12. janúar, 2016
Næring hlauparans
15. október, 2015