Anna Sóley Höf. 

DIY Djúpnæring


Við viljum flest öll hafa fallegt og heilbrigt hár og eftir sumarið og jafnvel sumarfríið erlendis hefur hárið fengið sinn skerf af sólaljósi og áreiti sem veldur því að það þurrkast upp og flækist. Það er til urmull af flottum og vönduðum hárvörum, en stundum fæ ég óbilandi þörf fyrir að hressa uppá hárið strax og finnst þá gott að geta gripið til einhvers sem ég á heima í skápnum. Það eru ótrúlegustu hlutir sem þú getur notað í þitt eigið hárspa en hérna eru hugmyndir af tveimur hármöskum sem mér finnst virka vel. 

Avocadonæring: 

Þessi næring smyr hárið vel, gefur góða áferð, fyllingu og raka. Avocado eru full af náttúrulegri fitu og fyllingu, það gerir þau kjörin í alls kyns heimaföndur fyrir bæði húð og hár. Í þetta skiptið er avocadoið mikilvægur þáttur í heimagerðu næringunni og býr til kremaða og þétta áferð og gefur hárinu auka olíusprautu. Fitusýrur ólífuolíunnar og mýkt Shea smjörsins bæta svo enn frekar á virkni blöndunnar sem er fullkomin fyrir þá sem eru með þykkt og mikið hár sem erfitt er að greiða úr. Súrt Ph gildi eplaediksins hjálpar til við að sporna gegn flækjum og þess má geta að það eru margir sem velja að nota ekki hefðbundnar hárvörur sem nota eplaedik í stað næringar því það hefur bæði mýkjandi og flækjulosandi áhrif.

1 skorið vel þroskað avocado

4 msk jómfrúar ólífuolía

8 msk/hálfur bolli shea butter

2-3 msk eplaedik

Hvernig ferðu að:

Skerðu avocadoið í sneiðar og settu það í blandara, ásamt hinum innihaldsefnunum. Þú þarft ekki að bræða Shea smjörið fyrirfram heldur skellir því bara beint ofan í með öllu hinu. Blandaðu svo öllu vel saman eða þangað til þér finnst áferðin ákjósanleg. Ef þér finnst blandan of þykk má bæta smá ólífuolíu við. 

Þegar þessa græna mixtúra er tilbúin berðu hana í hárið og leyfir henni að smjúga inn í um það bil hálftíma. Það er ráðlegt að smeygja plastskuplu yfir til að forðast allan subbuskap, að minnsta kosti í mínu tilfelli. Eftir hálftíma greiðirðu í gegnum hárið með fingrunum og skolar allt vel úr. Að því loknu getur blásið, gelað eða spreyjað að vild. 

Einföld kókosnæring

DSCF4875

Þessi maski inniheldur aðeins tvö hráefni sem eru hvoru tveggja mjög aðgengileg og leynast í eldhússkápum ansi víða. Ég á vinkonu sem elskar allt sem þarf bara að nota tvennt í, enda eru margar góðar uppskriftir sem sameina eitthvað tvennt í eina snilld. Ég veit að hún á eftir að elska þennan maska því hann raunverulega virkar. Þessi næring er fyrir þá sem vilja styrkja hárið, gefa því fallegan og náttúrlegan glans og raka. Ég gæti ekki lofsamað kókosolíu nóg en í þessu tilviki minnkar hún keratín tap hársins, en keratín er próteinið sem þú ert með í hárinu og villt halda sem mest í fyrir heilbrigði hársins. Hunangið varðveitir og eykur rakann í hárinu.

Innihald: 

4 msk jómfrúar kókosolía 

2 msk hreint hunang

Hvernig ferðu að:

Blandaðu innihaldinu saman í lítinn bolla og settu svo bollan í heitt vatnsbað. Leyfðu bollanum að liggja þar þangað til að blandan hitnar lítillega. Settu blönduna síðan í rakt og nýþvegið hár og aftur skelltu sturtuskuplunni yfir til að koma í veg fyrir að setja olíu um alla veggi. Leyfðu þessu að vera í hárinu í um það bil 20 mínútur og ef maskinn vill leka undan skuplunni er upplagt að skella bara handklæði yfir. Hreinsaðu mest allt úr hárinu en skildu eftir um það bil 10%, þannig framlengirðu virknina og færð jafnvel enn mýkra og sterkara hár. 

Báða maskana má í raun nota eins oft og manni lystir því allt er þetta jú náttúrulegt og hreint en ég reyni að gera vel við hárið á mér svona einu sinni í viku að minnsta kosti.

Njótið vel með glansandi fínt hár. 

Anna SóleyMynd : Dagný B. Gísladóttir

 

  • 18. ágúst, 2015
  • 1
Anna Sóley
Anna Sóley
Um höfund

Anna Sóley er nýflutt heim frá Kaupmannahöfn þar sem hún rak verslunina Ampersand og starfaði meðal annars sem stílisti. Anna hefur mikla ástríðu fyrir öllu skapandi, heilsutengdu og er DIY drottning Gló bloggsins.

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

Undirbúningur fyrir maraþon
05. ágúst, 2019
Nærandi bleikur þeytingur
28. október, 2017
10 HUGMYNDIR FYRIR GLÓANDI SUMAR
04. júlí, 2017
DIY – Detox bað
08. febrúar, 2017
DIY- Kollagen Skrúbbmaski
29. desember, 2016
DIY – Klístur og Klín Hreinsirinn Mikli
20. desember, 2016
Glóandi jólagjafahugmyndir
19. desember, 2016
DIY – Namastei Sprei
05. desember, 2016
GLÓARINN: EVA DÖGG
30. nóvember, 2016