Eva Dögg Rúnarsdóttir Höf. 

DIY Gler- og Speglasprey


Ég man, fyrir nokkrum árum, þegar ég var einu sinni að flytja úr einni Kaupmannahafnar leiguíbúðinni yfir í aðra. Ég var ólétt af yngstu dóttur minni og við fengum alla vini okkar til að koma í heimsókn og hjálpa okkur við að þrífa íbúðina okkar fyrir skil. Ég keypti fulla fötu af all konar týpiskum hreinsiefnum úti í búð, ekki alveg það besta fyrir ólétta konu að anda að sér og meðhöndla, en ég ætlaði sko aldeilis að nota eitthvað almennilegt eitur til að afkalka þessa blessuðu sturtu og taka ofninn í gegn!

FYLGSTU MEÐ EVU BÚA TIL UPPSKRIFTINA Í BEINNI Í DAG Á SNAPCHAT GLÓ: gloiceland

Charlotte vinkona mín, sem að er með sirka 20 ára lengri reynslu en ég við heimilisstörf og er alveg topp húsmóðir í einu og öllu var að sjálfsögðu boðin í þrif. Charlotte er fyrirmynd mín í mörgu, enda ein af þeim flottustu konum sem að ég þekki. Hún á sína eigin verslun sem að fókuserar á sjálfbærni og grænan lífstíl á einstaklega smart máta (..auðvitað staðsett í mest hipp og cool hverfi Kaupmannahafnar). Já þegar ég verð fimmtíu og eitthvað ætla ég sko aldeilis að vera jafn mikill töffari og Charlotte, hún er svo sannarlega mín eina sanna græna gúru(íní) og fyrirmynd í því hvernig nútíma drottningar haga sér. Allavega, aftur að sögunni, Charlotte mætir auðvitað fyrst af öllum vopnuð 3 microfiber tuskum, borðediki og ediksýru….og ENGU ÖÐRU!

Þarna ligg ég í sturtunni á fjórum fótum með bumbuna út í loftið, sveitt við að afkalka með öllu því helsta úr heimi eiturefna og ógeðs, alveg svakalega hissa að sjá hana bara með eitthvað edik!!?!! Þennan dag lærði ég mikið! Charlotte stoppaði mig af í ruglinu og kenndi mér dýrmæta lexiu; Hvernig ég gæti þrifið allt heimilið vel og auðveldlega aðeins með tveimur innihaldsefnum og vatni, sem að menga hvorki fyrir mér né heiminum. Ég hafði alltaf haft áhuga á að gera mínar eigin hreinlætisvörur, ég gerði mitt fyrir umhverfið, keypti bara lífrænt, var grænmetisæta og notaði einungis lífrænar og/eða hreinar vörur á líkamann og oftast keypti ég einhver svona grænari merki þegar ég keypti hreinlætisvörur fyrir heimilið, en akkurat þetta miklaði ég eitthvað svo mikið fyrir mér og í dag skil ég ekki afhverju. Með þessum pistlum mínum hér á Glókorn.is mun ég deila minni vitneskju með ykkur um hversu auðvelt og skemmtilegt það er að vera væn og græn húsmóðir með allt á hreinu í orðsins fyllstu merkingu!

En afhverju er best að gera hreinlætisvörur fyrir heimilið sjálf/ur?

Afþví að þær, Í ALVÖRUNNI, virka langbest, ilma langbest og eru svo sannarlega ekki stútfullar af eiturefnum sem að hafa skaðleg áhrif á hórmónastarfsemi okkar og elsku barnanna okkar. Svo eru þær líka miklu ódýrari og umhverfisvænari. Eins og þú sérð, ertu semsagt að gera bæði þér og alheiminum stóran og mikinn greiða.

Nútíma heimili eru yfirleitt hlaðin mengandi eiturefnum sem skýla sér á bakvið það að (þykjast) gera þér og heimilisfólkinu lífið auðveldara, sem að er bara alls ekki satt. Einu hreinlætisvörurnar sem að þú þarft, eru margar hverjar nú þegar til í eldhússkápnum þínum… og þá er ég að tala um í kryddskápnum eða búrskápnum. Í dag er ég ekki einungis að nota edik, en ég prófa mig áfram með alskonar skemmtilegu.

Bara sparnaðurinn er einn mjög góður punktur, þegar kemur að því að skipta aðeins um “hreinlætis og hreingerningarhætti” en það er alltaf gott að geta sparað sér nokkrar krónur hér og þar, en þessar krónur sem að safnast saman eru lítils virði ef að þú berð þær saman við virði góðrar heilsu, en þá getur kostnaður þessa eiturefna heldur betur farið að stíga. Þessi eiturefni geta haft langvarandi áhrif á heilsu okkar, og einnig mengað alveg svakalega umhverfið okkar, ekki bara þegar við notum þessar vörur, heldur einnig þegar þessar vörur eru framleiddar og þegar á að farga þeim eftir notkun, það hefur alveg hræðileg afleiðingar þegar þessi efni komast í tæri við náttúruna okkar, í grunnvatnið, í sjóinn osfrv.

FullSizeRender-2

Vaxandi fjöldi tilbúna umhverfisvænna og grænna hreinsiefnamerkja er sem betur fer í boði fyrir okkur uppteknu húsmæður og húsfeður sem að erum ekki alveg jafn spennt fyrir því að búa til okkar eigins perónulegu hreinsiefni. Þessi fyrirtæki eru oftast að vinna eftir sjálfbærum aðferðum hvað varðar framleiðslu og förgun og með því að velja þessi merki framfyrir önnur styrkjum við grænu góðu merkin sem stuðlar að vexti þeirra. Við kjósum með veskinu og það ber öllum húsmæðrum að hafa í huga. Uppáhaldið mitt er Mrs Meyers, ég ELSKA það. En í dag ætla ég að deila með ykkur besta speglaspreyji heims.

Þú finnur ekki betra glersprey en þetta, hvorki betri uppskrift né betri blöndu tilbúna í flösku úti í búð.

Það sem að þú þarft er;

1/3 bolli Própanol (ég nota frá gamla apótekinu)
1/2 bolli Borðedik (fæst í öllum matvörubúðum)
1 msk Maissterkja eða Arrow root – fæst á gló í Fákafeni
1 3/4 bolli vatn

Skelltu öllu í spreybrúsa og hristu vel.

Blönduna má geyma í plasti eða gleri, skiptir ekki öllu máli þar sem að engar ilmkjarnaolíur eru í uppskriftinni ..ef að barnið þitt kemst í hreinlætisskápinn og ákveður að taka vænan gúlb af þessu spreyi og innihaldsefnin eru ekki verri en þetta, þá er það eina sem að húsmóðir þarf að gera er að rétta blessaða barninu vatnsglas til að skola munninn með. Því að þó að þessi blanda sé góð fyrir heiminn, er hún alls ekki góð á bragðið.

xxx

Vesturbæjarfrúin

  • 12. október, 2016
  • 1
Eva Dögg Rúnarsdóttir
Eva Dögg Rúnarsdóttir
Um höfund

Eva Dögg leggur metnað í það sem hún tekur sér fyrir hendur, hvort sem það eru skór eða fatnaður fyrir hin ýmsu merki, jógarútínur fyrir nemendur sína eða snarl fyrir fjölskylduna þá setur hún alltaf hjartað í það. Eva er menntaður fatahönnuður og hefur unnið í tískubransanum síðustu 10 árin sem yfirhönnuður fyrir hin ýmsu merki, síðustu árin hefur hún þó hægt og bítandi farið aðeins yfir í hinn væna og græna heim sjálfbærni, heilsu og jóga, en hún er menntaður jógakennari og er svo heppin að geta leiðbeint bæði börnum og fullorðnum í jóga flesta daga vikunnar. Eva er einnig 2gja barna húsmóðir í Vesturbænum og þrátt fyrir mikið annríki fyrir utan heimilið reynir hún alltaf leggja sig alla fram í það hlutverk. Hér á Glókorn mun hún deila öllum sínum helstu ráðum hvað varðar fjölskyldulíf og heimilshald sem að gerir bæði heimilið og heiminn í leiðinni að betri stað að vera á. Fylgstu með henni á Snapchat - @werampersand

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

DIY – Detox bað
08. febrúar, 2017
DIY- Kollagen Skrúbbmaski
29. desember, 2016
DIY – Klístur og Klín Hreinsirinn Mikli
20. desember, 2016
DIY – Namastei Sprei
05. desember, 2016
GLÓARINN: EVA DÖGG
30. nóvember, 2016
GLÓARINN: Anna Sóley
24. nóvember, 2016
Glóandi saltskrúbbur
10. nóvember, 2016
DIY – Höfuðverkjasalvi
17. október, 2016
DIY- heimagerðar snyrtivörur
04. október, 2016