Anna Sóley Höf. 

DIY- heimagerðar snyrtivörur


Kæru Glóvinir, að þessu sinni ákvað ég að róa óþekkt mið. 

Mig hefur lengi langað til að prófa að gera snyrtivörur, þá meina ég ekki krem og maska heldur kinnaliti, varasalva, púður og þess háttar. Ég lét loksins verða að því og við Eva Dögg gerðum tilraunir og fengum þessa líka fínu niðurstöðu. Ég er ekki endilega að segja að þetta séu endalok þess að ég kaupi snyrtivörur, eða að ég sé hætt að kaupa náttúruleg og góð púður frá flottum og hreinum snyrtivörumerkjum. En það er samt gaman að hafa þennan möguleika og ég verð að segja að þetta gekk eiginlega vonum framar. Innihaldsefnin eru fá og auðvelt að nálgast þau og aðgerðirnar sérstaklega einfaldar. 

Svo hér kemur sittlítið af hverju: 

Kinnalitur:

Upphaflega ætluðum við að gera púðraðan kinnalit en ákváðum á síðustu stundu að gera hann blautan svo hann gæti þjónað tilgangi varagloss líka. Það heppnaðist sérstaklega vel en ég var búin að gera nokkrar tilraunir áður með litaða varasalva. Það er hægt að nota ýmislegt til að fá djúsí og fallegan varasalva til dæmis lanolin en við vildum gera vegan salva svo við fundum aðra lausn. Við vorum aðeins búnar að prófa okkur áfram með rauðbeðudufti en skoðuðum líka berjapúður. Það er að sjálfsögðu hægt að þurrka rauðbeður í þurrkofni og mylja þær í öreindir, en það var bara eitthvað svo þæginlegt og fyrirhafnalaust að fá það tilbúið.  

Niðurstaðan var sú að rauðbeðurnar gáfu meiri lit enda fagurrauðar og fullkomnar á bæði kinnar og varir. 

Uppskrift:

2 msk möndluolía

2 msk shea smjör 

1 msk kakósmjör 

1/2 msk kanill 

rauðbeðuduft eftir smekk – fer eftir því hversu mikinn lit þú villt hafa. 

Við settum bara alveg heilan slatta af lituðu púðri (rauðbeðu, berja) af því við vildu hafa mikinn lit. Kanillinn gefur gljáa og eins og ég hef skrifað áður þá er hann náttúrulegur vara-booster, svo að sjálfsögðu fékk hann að vera með. 

Aðferðin er einföld! Bræðið shea- og kakósmjörið og blandið saman við möndluolíuna. Þegar þið eruð komin með olíugrunninn blandast þurrefnin út í. Svo er það bara að hræra vel og setja inn í ísskáp til að kæla. Ekki flóknara en það. 

Laust púður: 

Það er sannarlega einfaldast af þessu öllu og við Eva vorum sammála um að þetta væri okkar uppáhalds heimagerða snyrtivara. Það gaf matta og jafna áferð og gerði okkur svona agalega fínar og sætar. Við ákváðum strax að þessi vara væri komin til að vera í snyrtiskápunum okkar. 

Uppskrift:

1 msk örvarrótarpúður (e arrowroot powder)

1/2 tsk kakóduft (þarna fer þetta samt eftir hversu dökk húðin er) 

4 dropar pipurmyntu ilmkjarnaolía

Þetta tók raunverulega nokkrar mínútur í framkvæmd og það sem meðal annars gerði þetta fyrir okkur var piparmyntu olían, hún jók sannarlega á ferskleikann. Við getum ekki mælt nægilega með þessu en við vorum í skýjunum, ég segi ekki annað. 

Framkvæmdin er líka sáraeinföld… Blandið og hrærið! 

Sólarpúður: 

Við tókum lausa púðrið og notuðum það sem grunn að sólarpúðri. Þarna komumst við að því að það þarf töluvert mikið af kakói til að ná þeim tón sem við vorum að leita að. Kakóið er það sem stýrir lit og dýpt, kanillinn gefur smá glans og múskat setur sólarkossinn í jöfnuna, svo þetta eru allt mikilvægir þættir í ferlinu. Fyrir utan að vera með piparmyntuolíu í grunninum af púðrinu, bættum við smá lavender olíu út. Með því að setja ilmkjarnaolíurnar með, meira eða minna, stýrir þú áferðinni á púðrinu. Viltu hafa það alveg laust eða villtu meiri þéttleika í það! Lyktin var guðdómleg…

Þarna er enginn eiginleg uppskrift af magni, maður verður svolítið að prófa sig áfram. Örvarrótinn er grunnurinn og hin innihaldsefnin stjórna útkomunni. 

100% hreinar og náttúrlegar snyrtivörur eru mikilvægasta niðurstaðan og það að vita nákvæmlega hvað er í því sem þú setur á andlitið á þér er dásamleg tilfinning. Púðrin og kinnalitinn máttu leggja þér til munns og þér verður ekki meint af, þó við mælum kannski ekki beint með þessu í millimál, þá er það þumalfingurreglan, að þú mættir borða það ef svo bæri undir. 

Við Eva snöppum alls kyns krúsídúllur og gleði undir snappinu @werampersand og við erum mjög spenntar fyrir því að þið prófið og segið okkur hvernig gekk. 

– Anna Sóley

  • 4. október, 2016
  • 0
Anna Sóley
Anna Sóley
Um höfund

Anna Sóley er nýflutt heim frá Kaupmannahöfn þar sem hún rak verslunina Ampersand og starfaði meðal annars sem stílisti. Anna hefur mikla ástríðu fyrir öllu skapandi, heilsutengdu og er DIY drottning Gló bloggsins.

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

Vegan Piparkökur – uppskrift
23. nóvember, 2017
Nærandi bleikur þeytingur
28. október, 2017
HVAÐ ER:: Chlorella
23. október, 2017
Vegan Bláberjaíspinni
10. ágúst, 2017
GLÓandi Versló
03. ágúst, 2017
Próteinríkur smoothie
24. júlí, 2017
KÓKOSKÚLUR – UPPSKRIFT
26. júní, 2017
Vegan Kelpnúðlu Satay
14. mars, 2017
Vegan matarplan
24. febrúar, 2017