Gló Höf. 

GLÓARINN: TANJA ÖSP


Stundum fáum við að eiga örlítinn þátt í uppeldi efnilegra og yndislegra ungmenna, en Tanja Ösp er ein af þeim sem við höfum verið það lánsöm að þekkja lengi. Hún byrjaði aðeins fimmtán ára í uppvaskinu og er síðan þá búin að vinna við afgreiðslu, eldamennsku og vaktstjórn, og allt gerir hún með stakri prýði. Hún starfar nú sem vakstjóri í Fákafeni og er nýútskrifaður stúdent frá Verzló. Við tókum hana í viðtal í fasta liðnum Glóarinn

18699463_2101744010052338_5982557441097664028_o


FULLT NAFN: Tanja Ösp Þorvaldsdóttir


HVAÐAN ERTU? Úr Mosfellsbæ (hef þó flutt til Bandaríkjanna og Lúxemborg í æsku líka)


GLÓ STAÐUR OG STARFSHEITI: Akkúrat núna er það vaktsjóri í Fákafeni, en hef verið á öllum stöðum síðustu ár í mismunandi störfum og þykir eiginlega jafn vænt alla staði og störf hér á Gló.


HJÚSKAPARSTAÐA: Í sambandi og í enda sumars í sambúð með Kjartani Sævarssyni.


HVER ER ÞÍN SAGA Í ÁTT AÐ BETRI HEILSU OG VELLÍÐAN?

Ég hef alltaf verið svolítið matvönd síðan ég var lítil svo ef ég á að vera hreinskilin þá hef ég kannski ekki alltaf hugsað mikið um hversu hollt það er sem ég borða, frekar bara að mér finnist það gott. En hreyfing hefur alltaf verið til staðar hjá mér og Gló kveikti svo sannarlega í mér varðandi heilsu. Hljómar kannski klisjukennt en ég vil meina að hugsunarhátturinn minn varðandi heilsusamlegt fæði og vellíðan hafi kviknað þegar ég byrjaði að borða holltt og gott grænmeti o.fl hjá Gló.


HVERT ER MINNISTÆÐASTA GLÓ AUGNABLIKIÐ? 

Einhvernveginn þrátt fyrir öll góðu, fallegu mómentin í kringum Gló-vini (árshátíðir, hittinga og erfiðar vaktir sem enda vel) þá fer hugurinn minn alltaf beint í fyrsta Gló-mómentið mitt. Það var uppvasksvakt á Engjateignum, sem var svolítið aðal staðurinn okkar þá. Rakel hafði sagt mér að koma á prufuvakt en af einhverjum ástæðum sem ég man mjög óljóst þá hafði hún lítinn tíma til að fara yfir allt með mér, bara það helsta, og það var brjálað að gera svo ég þurfti svolítið að fara beint í djúpu laugina. Við erum með lítið krúttlegt uppvask á Engjateignum sem hefur ekki breyst síðustu 5 ár og mér þykir alltaf rosa vænt um það – en þetta kvöld var þvílíka skelfingin fyrir mér, uppvaskið hrúgaðist upp, ég vissi ekki hvar neitt átti að vera og þar sem staðurinn var stappaður gafst lítill tími til að mynda vináttubönd við stelpurnar í afgreiðslunni. Eftir vaktina hringdi ég grátandi í mömmu mína, bað hana að sækja mig (ég var vön að taka strætó) og sagðist sko aldrei aftur ætla að vinna á Gló – ég myndi hringja næsta dag í Rakel og afþakka vinnuna. Ég komst þó yfir dramakastið og hér er ég fimm árum seinna og þykir mest vænt um þennan stað af öllum og alla sem að honum koma.


HVERNIG LIFIR ÞÚ GLÓ LÍFSSTÍLNUM UTAN VINNU? 

Gló og Solla hafa algjörlega breytt hugsunarhættinum mínum með því að hafa það algjört lykilatriði að flokka rétt. Mér finnst það mjög mikilvægt núna og er orðin mjög “græn”. Eins hugsa ég mikið um gæðin á hlutum sem ég borða og nota á húðina mína – hvaða efni eru í þeim og hvaðan þeir koma. Áhugi minn á yoga kviknaði líka út frá Gló og alls kyns hugsunarhættir í átt að betri andlegri heilsu.


HVER ER UPPÁHALDS RÉTTURINN?

Held það verði að vera eggaldin parmaggiano og síðan auðvitað mín eigin skál í Fákafeninu.


UPPÁHALDS SAMSTARFSMAÐUR/KONA?

Af öllum þessum gullmolum sem eru í kringum mig í vinnunni daglega þá verður Rakel rekstrarstjóri að fá þann heiður að vera alltaf uppáhald. Ekki nóg með það að vera frænka mín og mikil fyrirmynd síðan ég var lítil þá er hún bara manneskja með allt á tæru – í og utan vinnu. Það er alltaf hægt að treysta á hana með hvað sem er, hún lætur staðinn ganga smurðulaust og er alltaf tilbúin að hlusta á allt sem maður hefur að segja – jákvætt og neikvætt. Annar sem mætir mér alla daga með bros á vör í eldhúsinu er hann Wes okkar í Fákafeni, það einhvernveginn birtir alltaf daginn þegar maður fær að vinna með honum.


UPPÁHALDS FASTAKÚNNI?

Það er rooosalega erfitt að svara þessari, þeir eru svo margir sem heilsa alltaf með bros á vör og gera daginn betri. Það er þó einn sérstakur ofarlega í huga sem ég reyndar veit ekki nafnið á – ég gerði fyrir hann fyrstu skálina hans að “mínum” hætti og hann kemur alltaf aftur og biður um mig til að gera “mína” skál, það finnst mér mjög krúttlegt og skemmtilegt.


HVAÐ ER ÞAÐ FYRSTA SEM ÞÚ GERIR ÞEGAR ÞÚ VAKNAR?

Ég á það til að kúra eins lengi upp í rúmi eftir að ég vakna áður en ég þarf að byrja daginn. Þá finnst mér gott að sitja og borða í rólegheitum, best þegar ég kemst í sturtu og síðan bara að byrja daginn eins fljótt og hægt er!


ÞEGAR ÞÚ ERT EKKI Í VINNUNNI, ÞÁ ERTU?

Líklega í ræktinni, með vinum eða fjölskyldu að kúra yfir Friends eða að reyna að spreyta mín í myndlistinni.


HELSTU ÁHUGAMÁL? 

Handbolti hefur verið mitt mesta uppáhald síðan besta vinkona mín dró mig á fyrstu æfinguna um 8 ára gömul. Þar fyrir utan liggur hjartað mitt alltaf í list af einhverju tagi – að mála, teikna, taka ljósmyndir og spá í húsum og arkitektúr. Að ferðast og elda eða baka góðan mat er líka yndislegt.


IMG_6146

EF ÞÚ GÆTIR GEFIÐ FÓLKI EITT RÁÐ FYRIR HEILSUNA ÞÁ VÆRI ÞAÐ?

Það hljómar kannski ekki eins og heilsuráð en þetta er þó hvernig ég hugsa um heilsuna. Ekki hafa of miklar áhyggjur – borða eins hollt og maður getur og hreyfa sig eins og manni finnst best (með bolta, hlaup, lóð eða annað sem hentar þér), þá líður manni vel. Ég held það sé ekki gott að vera of heltekinn, maður verður að leyfa sér sunnudaga með ís og mánudags-lærdómskvöld með nammipoka.


EN FYRIR ANDLEGA HEILSU? 

Að umkringja sig góðu fólki sem kann á þig þegar þér líður illa. Ekki leyfa fólki sem lætur þér líða illa að vera í kringum þig. Ég veit hreinlega ekki hvar ég væri andlega án fjölskyldu minnar, kærasta og vina.


ÞÚ GÆTIR EKKI LIFAÐ ÁN: 

Fólksins sem mér þykir vænst um.


HREYFING: Yfirleitt, YFIRLEITT, hreyfi ég mig flest alla daga – nema þegar ég vinn frá opnun til lokunar á Glóinu mínu, það er nóg rækt fyrir mig þann dag haha 🙂 Mín uppáhalds hreyfing er alltaf handbolti eða brennsla af einhverju tagi, en vegna meiðsla hefur það ekki alltaf gengið upp síðasta árið.


HVER ER UPPÁHALDS STAÐURINN ÞINN Í VERÖLDINNI?

Alltaf þar sem fólkið mitt er, hvar sem það er hverju sinni. Við höfum búið í nokkrum löndum og nú eru þau öll stödd án mín í Norwich í Bretlandi. Draumastaðurinn minn síðasta árið hefur því alltaf verið þar, í garðinum okkar öll fjölskyldan saman.


FYRIRMYND: Foreldrar mínir eru mínar helstu fyrirmyndir, þau eiga okkur fimm systkinin og við erum sko alls ekki alltaf auðveld saman – samt fá þau okkur alltaf til að eiga góðar stundir. Þau hafa kennt mér hvað fjölskylda er mikilvæg, fyrir það hvernig þau hugsa um okkur systkinin dáist ég mest að þeim. Annars var hún Soffía heitin amma mín uppáhalds manneskjan mín í heiminum, hún kveikti áhuga minn á myndlist og kenndi mér reyna alltaf að vera góð við alla í kringum mig. Maður veit aldrei hvað næsta manneskja er að ganga í gegnum.


MOTTÓ:

“The best and the most beautiful things in the world cannot be seen or touched, they must be felt within the heart” OG “Blood doesn´t make you family – love does”


HVAÐ Á AÐ GERA Í HAUST: Ég mun vinna á bráðadeildinni næsta haust þar sem ég stefni á læknis- eða hjúkrunarfræðinám að ári og þarf aðeins að finna fyrir umhverfinu þar fyrst 🙂


LANGTÍMAMARKMIÐ:  Að hjálpa eins mörgum og ég get í lífinu – hvernig sem ég get get hjálpað. Það vera góð fyrirmynd annarra í kringum mig er mér mjög mikilvægt og að vera hamingjusöm.


TANJA VELUR SITT UPPÁHALD ÚR GLÓ Í FÁKAFENI:

tanjavelur

KOMBUCHA: Ég hafði aldrei heyrt um þetta fyrst þegar þetta kom í búðina til okkar, en eftir mikla fræðslu og mörg smökk hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þetta er uppáhalds drykkurinn minn í dag.

LIFE FACTORY BRÚSARNIR:  Litríkir, úr gleri ekki plasti og fullkomnir í stærð. Ég á tvo í mismunandi lit og nota þá við öll tilefni – rækt, vinnu, skóla og kósý heima.

ONZIE JÓGA TOPPARNIR: Á núna þrjá af þeim og það er eins og brúsarnir – þeir eru notaðir daglega og við hin ýmsu tilefni. Ég fékk þá hugmynd fyrir tveimur árum að fá mér einn og nota hann sem sundtopp, það sló í gegn og síðan þá hafa tveir bæst við sem ég nota bæði við hreyfingu og á venjulegum degi þegar ég skvísa mig upp.

JUSTIN´S PEANUTBUTTER CUPS: Því súkkulaði er best og þetta súkkulaði er með því betra, hnetusmjörið gerir fullkomið bragð!!

  • 24. júlí, 2017
  • 1
Gló
Gló
Um höfund

Gló opnaði fyrsta veitingastaðinn árið 2007 í Listhúsinu. Í dag rekur Gló þrjá veitingastaði og heilsubar í Fákafeni. Solla Eiríks er matarhönnuður Gló og frumkvöðull í íslensku hollustufæði. Gló leitast eftir því að búa til mat sem hjálpar viðskiptavinum sínum að verða besta útgáfan sjálfum sér. Finndu þitt Gló!

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

GLÓARINN – LINDA BJÖRK
01. nóvember, 2019
GLÓARINN – KAREN ÓSK
29. október, 2019
FIMM RÁÐ FYRIR FERÐALAGIÐ
15. júní, 2018
Morgundjamm í Fákafeni
17. apríl, 2018
GLÓARINN: Birgitta í Kaupmannahöfn
25. október, 2017
D-VÍTAMÍN fyrir heilsu og huga
19. október, 2017
Töfrar kombucha drykksins
24. september, 2017
10 HUGMYNDIR FYRIR GLÓANDI SUMAR
04. júlí, 2017
Glóarinn: Sara Kristín
06. júní, 2017