Gló Höf. 

Viðtal við Ásdísi grasalækni


Ásdís Ragna Einarsdóttir grasalæknir er sérfræðingur í jurtum og góðri næringu.  Hún verður með námskeið um Heilsu og Næringu á Gló í Fákafeni þann 6. sept n.k og er einnig með Gló snappið í dag @gloiceland. Við heyrðum í henni hljóðið og fengum hana til að svara nokkrum spurningum:

Hvaðan ertu, hvað ertu gömul og hvað varð til þess að þú fórst að læra grasalækninn?

Ég er frá Keflavík og er 36 ára gömul og ég var bara á unglingsárunum þegar ég ákvað að ég vildi verða grasalæknir og eiginlega upp úr þurru. En vissulega ýtti það enn frekar við mér að ég fór í sveit í vinnu hjá Kristbjörgu Kristmundsdóttur í Vallarnesi um 15 ára aldur þar sem ég fékk m.a. að kynnast lífrænni ræktun, lærði að elda grænmetisfæði ofan í heila fjölskyldu og nota afurðir náttúrunnar eins og lækningajurtir og olíur til þess að bæta heilsu okkar.

Nú ertu að fara að halda fyrirlestur um heilsu og næringu 6. september. Ef þú gætir gefið eitt gott ráð fyrir heilsuna, hvað væri það?

Mér brennur það mjög á hjarta að fá fólk til þess að nota oftar lækningajurtir sem hluta af daglegu mataræði eins og t.d. með því að drekka meir af góðu jurtate á móti kaffi, nota jurtir eins og turmerik út á omelettuna sína og hvannarfræ í súpuna, skella smá maca duft í grautinn sinn eða ashwagandha duft í boostið sitt. Lækningajurtir eru algjör ofurfæða og við lyftum heilsunni okkar upp á næsta plan með því að kúpla þeim inn í daglegt mataræði!

Hver er þín persónulega matarspeki?

Eftir að hafa prófað eitt og annað í gegnum tíðina þá hefur mér farnast það best að hlusta á líkama minn og hvað mér líður vel af heldur en að eltast við einhverjar tískubylgjur í mataræði og mér finnst þessi gullni meðalvegur bestur og mikilvægt að hafa sveigjanleika þegar kemur að mataræðinu okkar. Ég nota t.d. gjarnan uppskriftir úr öllum áttum eins og hráfæðis, vegan, lágkolvetna, paleo, glúteinlaust/sykurlaust o.fl og bara það sem hugurinn girnist hverju sinni. Grænmeti er í algjöru aðalhlutverki hjá mér og ég nota sæta ávexti sparlega, ég nota eingöngu glúteinlaust korn og borða ekki mikið kornmeti yfir höfuð, mjólkurvörur sneiði ég framhjá en nota geitaost, borða fisk, hreinan kjúkling og íslenskt lambakjöt. Eins nota ég mikið af fræjum og hnetum, baunum&linsum og góðum kaldpressuðum olíum. Ég reyni að koma því fyrir að fá mér alltaf eitthvað grænt á hverjum degi og fæ mér iðulega einn grænan boost eða safa daglega og hef haldið mig við það lengi. Svo finnst mér mjög gott að gera vel við mig með góðu lífrænu 85% súkkulaði og ég er löngu búin að telja mér trú um að dökkt eðal súkkulaði er meinhollt fyrir heilsuna!

Hvernig byrjar þú daginn vanalega?

Ég fæ mér alltaf 1 stórt glas af heitu vatni strax þegar ég vakna og set gjarnan smá engifer duft út í, smá himalaya salt, slettu af eplaediki og ferskan lime safa. Þetta vekur hreinsilíffærin og er gott fyrir meltinguna. Ég er yfirleitt mjög svöng á morgnana og þarf góðan morgunmat og fæ mér oftast chiagraut með glúteinlausum höfrum, möndlumjólk, bláberjum, hnetum og kókósflögum eða grænan/berja/súkkulaði þeyting með lífrænu jurtapróteini og alls konar ofurefnum og öðru heilsustöffi. Enda svo máltíðina oftast með góðu lífrænu jurtate meðan ég legg línurnar fyrir daginn.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég hef mikinn áhuga á matjurtaræktun enda hef ég ræktað mitt eigið salat og ýmislegt grænmeti í nokkur ár og deili þessu áhugamáli með tengdapabba og við eigum stórt land fyrir utan bæjarmörkin og gamalt sveitabýli þar sem við erum með gróðurhús og mjög stóran garð enda flæðir eldhúsið mitt af dýrindis salati allt sumarið og langt fram á haust.

Uppáhalds drykkurinn þinn?

Uppáhalds drykkurinn minn er lífrænn koffínlaus möndlu cappucino á Gló, algjört trít! Svo auðvitað hin ýmsu dýrindis jurtate og Pukka te línan er í smá uppáhaldi hjá mér.

Uppáhalds maturinn þinn?

Uppáhaldsmaturinn minn er grilluð bleikja með nýju lífrænu grilluðu grænmeti, heimagerðu pestó og rifnum geitaosti yfir. Annars er ég svo mikið gúrmei matargat að það er erfitt að velja eitthvað eitt! Matarmiklar grænmetissúpur og djúsí salöt eru ómissandi stór hluti af mataræðinu mínu.

Uppáhalds réttur á GLÓ?

Ég elska blómkáls sushi hráfæðisréttinn á Gló og svo er ég gjörsamlega háð grænkálssnakkinu frá Gló.

Hreyfir þú þig, hvernig og hversu oft?

Ég er algjörlega háð göngutúrum og geng alla daga vikunnar úti í hvaða veðri sem er en mér finnst máttur göngutúra ótrúlegur enda eru þeir svo mikil næring bæði líkamlega og andlega og þarna fæ ég mína hugleiðslu. Svo hef ég líka verið að hlaupa reglulega í gegnum árin, skottast aðeins á fjöll og lyfti reglulega í hóp með hressum konum og þjálfara sem sér um að halda okkur við efnið.

Eitthvað nýtt heilsuæði?

Nýjasta heilsuæðið hjá mér er sennilega aukin neysla á vegan vörum en það er orðið svo fjölbreytt úrval af góðum vegan vörum og nýja uppáhaldið mitt er COYO hreina jógúrtin sem fæst í Gló en hún er ómótstæðilega góð með smá vanillustevíu og ferskum berjum! Svo allir þessir góðu vegan ostar sem eru svo ljúffengir með glúteinlausu brauði/hrökkkexi.

Áttu þér fyrirmynd?

Ég á mér nokkrar fyrirmyndir og reyni fyrst og fremst að nýta mér reynslu og visku þeirra sem standa mér næst sem leiðarvísir í lífinu.

Markmið á árinu?

Gera meira af því sem hækkar hamingjustuðulinn og því sem nærir mig líkamlega og andlega.

Hvað munu þeir sem mæta á fyrirlesturinn læra?

Á námskeiðinu mínu Næring & Heilsa sem er næsta þriðjudag á Gló mun ég fara vítt og breitt yfir hvernig við getum lyft mataræðinu og heilsu okkar á næsta plan og einnig mun ég gefa þeim fullt af heilsutrixum til þess að auka orkuna, jafna blóðsykur og slá á sykurlöngun, hugmyndir að hollum millibitum og hvaða bætiefni eru gagnleg til að efla heilsu okkar í daglegu lífi. Hentar öllum þeim sem vilja taka til í mataræðinu sínu og hvernig við getum látið okkur líða betur í kroppnum á heilsusamlegu mataræði.

Áttu góða uppskrift til að gefa okkur?

Chai & Engifer morgunboost

1 bolli kalt rauðrunnate

½ b möndlumjólk

1 msk möndlusmjör

1 msk vegan prótein

½ tsk Allrahanda krydd

1 tsk engifer duft

1 tsk kanil duft

smá vanilla ef vill

nokkrir ísmolar

  • 2. september, 2016
  • 0
Gló
Gló
Um höfund

Gló opnaði fyrsta veitingastaðinn árið 2007 í Listhúsinu. Í dag rekur Gló fjóra veitingastaði og heilsuverslun í Fákafeni. Solla Eiríks er matarhönnuður Gló og frumkvöðull í íslensku hollustufæði. Gló leitast eftir því að búa til mat sem hjálpar viðskiptavinum sínum að verða besta útgáfan sjálfum sér. Finndu þitt Gló!

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

Óstöðvandi sjálfstraust með Bjarti Guðmunds
28. júní, 2017
Heilsuþerapistinn Martin Bonde kemur til landsins
29. mars, 2017
DIY – Detox bað
08. febrúar, 2017
Að draga úr vanlíðan eða efla vellíðan?
19. janúar, 2017
Höldum holl og góð jól! – UPPSKRIFT
03. desember, 2016
GLÓARINN: Anna Sóley
24. nóvember, 2016
Melting og bólgusjúkdómar: viðtal við Birnu Ásbjörnsdóttur
29. október, 2016
Lifðu til fulls! – Viðtal við Júlíu heilsumarkþjálfa
10. október, 2016
Ljómandi ráð og uppskriftir
25. ágúst, 2016