Gló Höf. 

Melting og bólgusjúkdómar: viðtal við Birnu Ásbjörnsdóttur


Birna G. Ásbjörnsdóttir er með meistaragráðu í Næringarlæknisfræði (Nutritional Medicine) frá University of Surrey í Bretlandi og hefur síðustu tvo áratugi unnið við einstaklingsráðgjöf hérlendis og erlendis ásamt því að veita reglulega fræðslu fyrir fagfólk og almenning. Þessi flugklára kona heldur námskeið um meltingu og bólgusjúkdóma á Gló næsta miðvikudag sem enginn ætti að missa af, en hún mun einnig fjalla um óþol, andlega heilsu og fleira.Við heyrðum í henni og spurðum hana út í heilsu og lífsstíl:


Hvaðan ertu og hvað varð til þess að þú sérhæfðir þig í næringarfræði og mannspekilækningum?

Ég er fædd og uppalin á Seltjarnarnesi. Ég hef alla tíð haft áhuga á heilbrigði og las jóga heimspeki þegar ég var barn og unglingur. Mannspekin (sem er ákveðin heimspeki) heillaði mig síðar og fór ég í nám í þeim fræðum til Englands þegar ég var rúmlega tvítug. Fyrir nokkrum árum bætti ég síðan við mig framhaldsnámi í Mannspekilækningum, en það er viðurkennt framhaldsnám fyrir heimilislækna (General Practitioners) í Bretlandi. Ég lauk einnig meistaranámi í Næringarlæknisfræði fyrr á þessu ári. Þetta tvennt fer vel saman þar sem nálgun á heilsu og næringu er heildræn. Hlutir eru settir í samhengi í stað þess að sundurgreina, sem hefur verið ríkjandi stefna fram að þessu. Næringarlæknisfræðin er mjög rannsóknarmiðað nám sem hentaði mér vel og sennilega ástæðan fyrir sérhæfingu minni á því sviði.


Nú ertu að fara að halda fyrirlestur um meltingu og bólgusjúkdóma. Hvenær fórstu fyrst að tengja þessi tvö fyrirbæri saman?

Það er langt síðan. Ég hef alltaf haft þá trú að sjúkdómar eigi upptök sín í meltingarveginum, en það er auðvelt að færa rök fyrir því. Ég hef því eytt miklum tíma í að skoða þessi fræði og setja hlutina í samhengi. Í dag rignir inn vísindalegum fróðleik um þessi efni. Sjálf gerði ég stóra rannsókn sem náði yfir 65.000 manns. Þar skoðaði ég áhrif mjólkursýrugerla á sýkingar og fékk sannfærandi niðurstöður um ágæti þeirra. Rannsóknir sýna okkur klárlega að heilbrigður meltingarvegur er forsenda þess að við fáum ekki sjúkdóma.


Hvaða bólgusjúkdóma hefur þú séð lagast verulega með breyttu mataræði?

Langvinnir sjúkdómar flokkast sem bólgusjúkdómar. Með breyttum lífstíl s.s. breyttu mataræði, aukinni hreyfingu og markvissri streitustjórnun er hægt að ná niður bólgum og snúa ferlinu við í mörgum tilfellum. Þannig er hægt að bæta lífsgæði og öðlast meiri vellíðan.


Ef þú gætir gefið eitt gott ráð fyrir heilsuna þá væri það..?

Að næra sig andlega. Ef við erum með andlegan næringarskort þá skiptir ekki máli hvað við borðum.


Hver er þín persónulega matarspeki og af hverju?

Að borða heilnæma fæðu sem er sem minnst unnin. Forðast alla fæðu sem er með innihaldslýsingar. Við eigum ekki að þurfa að lesa hvað er í matnum okkar, við eigum að sjá það þegar við horfum á hann. Mín matarspeki felst fyrst of fremst í að forðast öfgar. Öfgar eru ekki heilbrigðar og þar tala ég af reynslu. Ég hef prufað margt á eigin skinni síðustu 25 árin hvað varðar fæði og hef því víðtæka þekkingu, bæði faglega og persónulega.


Hvernig byrjar þú daginn vanalega?

Ég er yfirleitt vakin eldsnemma af honum Nóa syni mínum með endalausum kossum og faðmlögum. Það eitt og sér er stórkoslegt og nærir mig andlega. Síðan borða ég eitt grape aldin og fæ mér nýmalað lífrænt Sólheimakaffi (besta kaffi í heimi) með miklum rjóma. Tek síðan inn mjólkursýrugerla, olíur og D vitamin. Enda svo á að gera mér góðan hristing sem inniheldur fullt af súperfæði. Þá er ég komin með góðan skammt af andlegri og líkamlegri næringu til að byrja daginn.


Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég mála Íkona eftir aldagömlum hefðum. Nota eingöngu náttúruleg efni s.s. gull, tré, náttúruleg litarefni blönduð með eggjarauðum og hvítvíni. Ég er einnig að læra á selló en hef allt of lítinn tíma til að æfa, því miður. Ég er nýbyrjuð að læra frönsku, sem er gamall draumur. Síðan er fjölskyldan mín, maðurinn minn og börnin mín tvö, auðvitað mitt aðal áhugamál. Við erum gott teymi og eigum frábærar stundir saman, hugsum um hænurnar í garðinum, eldum saman og eigum góðar stundir. En fyrst og fremst þá hef ég áhuga á lífinu og öllum þeim dásemdum sem það hefur uppá að bjóða.


Uppáhalds drykkurinnn þinn?

Akkúrat núna er það GingerLove sem ég drekk alltaf á kvöldin ❤


Uppáhalds maturinn þinn?

Ég elska að borða en get svo auðveldlega lifað á baunaspírum og súrkáli. Þannig að ég veit ekki hvað ég á að segja…ætli það sé ekki lax sem ég baka með helling af smjöri og sjávarsalti og borða síðan með miklu grænmeti og helli smjörinu yfir.


Uppáhalds réttur á GLÓ?

Alvöru hamborgarinn sem er úr nautakjöti, en ég fæ mér hann þó sjaldan því það er þungur matur.


Hreyfir þú þig: hvernig og hversu oft?

Ég fer í göngur í sveitinni þar sem ég bý. Stundum gef ég mér ekki nægan tíma til að hreyfa mig en ég reyni að teygja reglulega og hoppa á trampólíni sem er í garðinum okkar. Hún Embla dóttir mín, sem er snillingur í fimleikum, er búin að kenna mér heljarstökk og fleira skemmtilegt.


Eitthvað nýtt heilsuæði?

Að næra sálina – Andlegur næringarskortur er furðu algengur nú til dags.


Áttu þér fyrirmynd?

Börnin mín og maðurinn minn. Þau eru öll á sinn hátt frábær og hafa svo sannarlega hjálpað mér að þroskast og læra í lífinu. Foreldrar mínir, sem eru einstaklega einlæg og góð og hafa alltaf stutt mig heils hugar. Einnig hef ég haft marga góða kennara í gegnum tíðina sem ég ber virðingu fyrir.


Markmið á árinu?

Ég set mér alltaf markmið fyrir hvert ár. Ég hef nú þegar lokið þeim nokkrum fyrir þetta ár, eins og að öðlast meistaragráðu, hefja undirbúningsnám fyrir doktornám og vera með reglulega fræðslu fyrir almenning og fagfólk. Það sem ég er að vinna í núna af fullum krafti er að næra mig andlega. Það geri ég m.a. með því að dýpka þekkingu mína á Íkonagerð og að gefa mér meiri tíma til að mála Íkona myndir. Fyrir mér er þetta hugleiðsla og falleg athöfn sem tengir saman huga, hjarta og hönd.


Langtíma-markmið?

Að ljúka doktorsnámi. Að halda sýningu á íkonamyndum. Að leggja mig fram um að gera betur, hvort sem það er að veita fræðslu, mála, spila, næra mig eða sinna fjölskyldunni. Að halda áfram að stíga út fyrir þægindarammann til að öðlast nýja reynslu.


Hvað munu þeir sem mæta á fyrirlesturinn þinn læra?

Ég fer yfir það sem skiptir máli þegar kemur að heilbrigðum meltingarveg og af hverju. Hvernig meltingarvegurinn er forsenda þess að við fáum ekki sjúkdóma. Ég mun fjalla um óþol almennt og af hverju við myndum óþol fyrir fæðutegundum. Ég kem inná bólgur og ofþyngd. Tek einnig fyrir hvernig fæðan getur haft áhrif á geðheilsu hjá ákveðnum hóp af fólki. Síðast en ekki síst fjalla ég um þarmaflóruna og hvaða máli hún skiptir í þessu samhengi.


Við þökkum Birnu fyrir svörin og hlökkum til að læra af henni á miðvikudaginn!

SKRÁNING Á NÁMSKEIÐIÐ HÉR

  • 29. október, 2016
  • 0
Gló
Gló
Um höfund

Gló opnaði fyrsta veitingastaðinn árið 2007 í Listhúsinu. Í dag rekur Gló þrjá veitingastaði og heilsubar í Fákafeni. Solla Eiríks er matarhönnuður Gló og frumkvöðull í íslensku hollustufæði. Gló leitast eftir því að búa til mat sem hjálpar viðskiptavinum sínum að verða besta útgáfan sjálfum sér. Finndu þitt Gló!

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

Undirbúningur fyrir maraþon
05. ágúst, 2019
Nærandi bleikur þeytingur
28. október, 2017
Töfrar kombucha drykksins
24. september, 2017
10 HUGMYNDIR FYRIR GLÓANDI SUMAR
04. júlí, 2017
Óstöðvandi sjálfstraust með Bjarti Guðmunds
28. júní, 2017
Heilsuþerapistinn Martin Bonde kemur til landsins
29. mars, 2017
Djúsdagur Huldu B Kraftlyftingakonu
13. febrúar, 2017
DIY – Detox bað
08. febrúar, 2017
Að draga úr vanlíðan eða efla vellíðan?
19. janúar, 2017