Gló Höf. 

Viðtal við Röggu Nagla


Ragnhildur Þórðardóttir eða Ragga Nagli eins og flestir þekkja hana sem kallar ekki allt ömmu sína. Hún er stendur svo sannarlega undir nafni þegar kemur að hreyfingu, heilsu og aga, enda búin að ná langt á flestum sviðum lífs síns. Ragga er kraftmikil og metnaðarfull með einstaka ástríðu fyrir heilsusamlegum lífsstíl. Í dag heldur hún sitt fyrsta námskeið í Gló skólanum í Fákafeni sem kallast NÆRING OG NÚVITUND. Við heyrðum í Röggu og fengum að yfirheyra hana um hennar persónulegu venjur, markmið og fengum góð ráð fyrir heilsuna:


 

Fullt nafn: Ragnhildur Þórðardóttir

Aldur:  37 ára. 

Uppruni: Ég ólst upp í Fossvoginum Reykjavík, svo ég er Reykvíkingur í húð og hár en á ættir að rekja í Ísafjarðardjúp og í Hafnarfjörð

Hvað varð til þess að þú fórst að sérhæfa þig í heilsusálfræði?

Ég hef pervertískan áhuga á heilsusamlegum lífsstíl og að sama skapi ódrepandi áhuga á hvernig hugsanir stýra hegðun og tilfinningalífi. Hugur stjórnar hegðun, og hegðun stjórnar heilsu. Þegar ég sá að það væri búið að sameina þetta tvennt í fræðigrein um hvernig má nýta sálfræðikenningar í að stuðla að heilsuhegðun var þetta nám selt mér á núlleinni. Og ég pakkaði í tösku og tók mastersnám í Bretlandi. Síðar bætti ég við mig klínísku námi ” við Kaupmannahafnarháskóla með áherslu á “Eating psychology” sem kafar í samband okkar við mat. Hvernig, hvað og af hverju við borðum.

Nú ertu að fara að halda fyrirlestur um næringu í núvitund þriðjudaginn 13. september. Hvernig fórstu inn á þessa línu að tengja þetta tvennt saman?

Ég fór að finna það hjá sjálfri mér að þegar ég hægði á mér við að borða, settist niður og naut máltíðarinnar á löngum tíma þá var ég miklu rólegri gagnvart mat, og fann ekki lengur þessar “cravings” í sætindi og sukkmeti. Þá komst ég betur í tengsl við merkin um svengd og seddu og fór að kynna mér mindful eating. Hef notað þetta mikið á skjólstæðinga mína og það er alltaf jafn gaman að upplifa með þeim þetta “AHA” moment. Þegar þau átta sig á að við að hægja á sér að þá njóta þau betur og þurfa ekki að borða eins mikið.

Ef þú gætir gefið eitt gott ráð fyrir heilsuna þá væri það að?

Að gera margar litlar breytingar á venjum yfir langan tíma. Breyta því sem þú vilt breyta um bara 5%. Til dæmis fara að sofa 10 mínútum fyrr á hverju kvöldi í eina viku. Síðan aftur 10 mínútum fyrr í næstu viku. Áður en þú veist af ertu orðinn snemmháttari án þess að hafa mikið fyrir því.

Eins er mikilvægt að stýra umhverfinu svo það styðji við heilsuhegðun og æskilegar ákvarðanir. Af því við erum bara afurð af umhverfinu okkar

Til dæmis að setja hollustu í augnhæð í skápana, niðurskorna ávexti í ísskápinn og skipta í minni diska, minni glös, minni hnífapör. Heilsuhegðun hefur nefnilega gáruáhrif og við förum að taka betri ákvarðanir í annarri hegðun ef við erum orðin heilsusamleg á einu sviði.

Mannskepnan er vanavera og líkar illa að þvinga sig í miklar breytingar. Þegar við tökum varla eftir breytingunum verður heilsulífið smám saman að lífsstíl.

Hver er þín persónulega matarspeki?

Ég reyni að borða sem mest af heilli fæðu með eitt innihald sem er ekki í umbúðum með merkimiða. Heldur fæðu sem var einu sinni dýr eða planta. Mat sem líkaminn er hannaður til að melta og vinna úr. Ég elda nánast allt sjálf frá grunni. Það má því segja að mín matarspeki sé að borða eins og forfeður okkar gerðu.

Að borða þegar við erum svöng og hætta þegar við erum södd. Því svengd er besta kryddið.

Hvernig byrjar þú daginn vanalega?

Ég borða Hafragrautur alla morgna. Líka á jólunum. Líka á páskum og afmælum. Ég útfæri hann á allskyns vegu. Kaldan graut. Heitan graut. Grautartriffli. Bakaðan graut. Geri köku úr haframjölinu. Haframjöl er eins og kameljón sem má bregða í allra kvikinda líki.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Erlendar kvikmyndir.sálfræði, ferðalög, tungumál, matargerð, framandi menningarheimar og á síðustu árum hef ég mikinn áhuga á pólitiík.

Uppáhalds drykkurinnn þinn?

Vatn númer eitt, tvö og þrjú. Drekk ekki áfengi en fæ mér sykurlaust gos. Stundum oft. Stundum sjaldnar. Fullkomnun.

Uppáhalds maturinn þinn?

Tyrkneskur matur er í miklu uppáhaldi. Grillað kjöt, hrísgrjón, hummus, tzatziki. Sushi, og indverskt eru líka alltaf reglulegir klassíkerar.

Hreyfir þú þig, hvernig og hversu oft?

Ég hreyfi mig eitthvað á hverjum degi. Ég æfi með þjálfaranum mínum, Birgi Konráðssyni, eða Bigga Boot Camp. Ég lyfti 3-4x í viku og tek sprengiæfingar 2-3x í viku. Ég er mest í þungum lyftingum, klassískum og ólympískum, og crossfit æfingum með allskonar hoppum og hamagangi. Svo tek ég alltaf 1-2 hvíldardaga þar sem ég fer bara í laufléttan göngutúr með kallinum.

Eitthvað nýtt heilsuæði?

Er ekkert fyrir æði, skyndilausnir eða kúra af því þau einblína bara á að breyta hegðun og það er bara eitt púsl í risastóru púsluspili sem er líf fólks. Ég vinn í hugarfari, skoðunum svo fólk skilji af hverju óæskilegar venjur séu til staðar og með þá þekkingu að vopni verður auðveldara að breyta þeim. Ég segi oft við fólk að ef það sér ekki fyrir sér að borða eða hreyfa sig svona eftir 10 ár, þá er þetta ekki langvarandi lausn.

Áttu þér fyrirmynd?

Ég á mér fyrimyndir á mörgum sviðum. Móðuramma mín kemur alltaf fyrst upp í hugann en hún var með einstakt jafnaðargeð, alltaf létt í lundu og sérstakur húmoristi. Naglagenið er frá mömmu sem er með munninn fyrir neðan nefið. Faglega lít ég mest upp til systur minnar sem er nú háttsett hjá CNN eftir 20 ár hjá BBC. Erlend kona í jakkafataklæddum heimi sem hefur þurft að berjast á toppinn. Konur sem eru komnar af léttasta skeiði og eru ennþá að rífa í járn eins og berserkar blása mér líka alltaf baráttuanda í brjóst. Kristjana Hildur. Ingunn Lúðvíksdóttir og Harpa Melsteð koma þar helst upp í hugann.

Markmið á árinu?

Að brosa meira og ég tel mig hafa náð ansi langt með það. Allavega er ég komin með fleiri broshrukkur.
Ég ætlaði að horfa minna á sjónvarpið en það hefur ekki gengið eins vel. Batnandi mönnum…. Er það ekki?

Langtímamarkmið?

Að læra fleiri tungumál, kynnast fleiri menningarheimum með ferðalögum, borða meira af góðum mat og stunda meira mindfulness.

Hvað munu þeir sem mæta á fyrirlesturinn læra?

Að matur öðlist aftur hlutverk sitt sem næring og gleði, en sé ekki uppspretta togstreitu, sektarkenndar og samviskubits eins og því miður er oft raunin í nútímasamfélagi.

Að i staðinn fyrir enn einn kúrinn lærum við að þekkja merki um svengd og seddu.

Í staðinn fyrir kaloríureikna, excel skjöl, matarplön og símaöpp notum við þessa meðfæddu eiginleika til að byrja að borða og síðan hætta að borða.

Að með því að vera til staðar í máltíðinni og upplifa matinn með öllum skilningarvitum verðum við södd bæði á líkama og einnig á sálinni og það kemur í veg fyrir skápaskrölt á kvöldin sem oft er örvæntingarfull leit að fyllingu í óútskýrt tómarúm.

Þannig öðlumst við jafnvægi, fullnægingu og gleði við að borða.

VIÐ ÞÖKKUM RÖGGU FYRIR SVÖRIN. SKRÁNING Á NÁMSKEIÐIÐ HÉR

  • 13. september, 2016
  • 1
Gló
Gló
Um höfund

Gló opnaði fyrsta veitingastaðinn árið 2007 í Listhúsinu. Í dag rekur Gló fjóra veitingastaði og heilsuverslun í Fákafeni. Solla Eiríks er matarhönnuður Gló og frumkvöðull í íslensku hollustufæði. Gló leitast eftir því að búa til mat sem hjálpar viðskiptavinum sínum að verða besta útgáfan sjálfum sér. Finndu þitt Gló!

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

FIMM RÁÐ FYRIR FERÐALAGIÐ
15. júní, 2018
GLÓARINN: Birgitta í Kaupmannahöfn
25. október, 2017
D-VÍTAMÍN fyrir heilsu og huga
19. október, 2017
Töfrar kombucha drykksins
24. september, 2017
GLÓARINN: TANJA ÖSP
24. júlí, 2017
10 HUGMYNDIR FYRIR GLÓANDI SUMAR
04. júlí, 2017
Glóarinn: Sara Kristín
06. júní, 2017
Heilsueflandi jurtir í mataræði okkar
31. maí, 2017
TEAM GLÓ: Íris Ásmundardóttir
24. maí, 2017