Avatar Höf. 

Hvað er hægt að gera við möndluhrat?


Ég er sannkallaður möndlu-mjólkurkálfur.  Ég drekk hana næstum daglega og nota mikið þegar ég bý til mat og þeytinga. Heimagerð möndlumjólk er gómsæt og full af næringu og góðri fitu. En vandamálið sem fylgir möndlumjólkargerð og allri heimagerðri hnetumjólk er allt hratið sem fer til spillis. Þessu vildi ég sporna við og hef því sankað af mér nokkrum sniðugum uppskriftum og aðferðum til þess að nýta það.

Hvað er möndluhrat

Einn bolli af möndlum gerir hálfan bolla af möndluhrati. Hratið er semsagt það sem verður eftir þegar þú sigtar möndlumjólk og er ansi trefjaríkt – sjá neðst í grein uppskrift að möndlumjólk -. Ef þú ætlar að nota hratið strax eða innan fimm daga þá er í góðu lagi að geyma það í ísskápnum í lokuðu íláti. Ef þú hefur hugsað þér að geyma það lengur er ráð að frysta hratið þar til þú þarft á því að halda.

Hér eru nokkrar hugmyndir sem vert er að prufa: 

Möndlumjöl

Að þurrka hrat í þurrkofni eða baka það á mjög lágum hita þar til það þornar býr til dásemdar möndlumjöl sem er hægt að nota í ýmsan bakstur. Þegar hratið er orðið þurrt þá er gott að fjarlæga alla klumpa og mylja mjölið fínt niður. Geymdu í lofttæmdri krukku.

Möndluskrúbbur

Þetta er mín uppáhalds nýting á hratinu, þar sem ég þarf hvorki að þurrka hratið né vinna það á neinn hátt. Að skrúbba sig með hratinu einu saman bæði líkaman og andlit hefur reynst mér mjög vel en svo er einnig hægt að búa til einfaldan andlitsskrúbb með því að bæta út í möndluolíu og nokkrum dropum af ilmkjarnaolíu.

Muffins, pönnukökur og kex

Þú þarft ekki heldur að þurrka hratið til að búa til þessar vegan muffins og aðrar uppskriftir eins og af kexi eða pönnukökur. Möndluhrat er frábær leið til að bæta við góðum skammt af trefjum í hinar ýmsu uppskriftir.

Skorpa

Áferðin á möndluhrati gerir það tilvalið til þess að búa til hráfæði skorpur fyrir pizzur og eftirrétti.

Borgarar

Möndluhrat er frábært bindiefni til þess að halda saman grænmetisborgurum, prufaðu að skipta út brauðmolum eða minnka þá í uppskrift og setja í stað möndluhrat.


Vonandi nýtir þú þér einhverjar af þessum leiðum til að nýta hratið. Læt svo að lokum fylgja myndskeið af elsku Sollu búa til möndlumjólk frá grunni.

  • 13. desember, 2016
  • 0
Avatar
Dagný Berglind Gísladóttir
Um höfund

Dagný er ritstýra tímaritsins Í boði náttúrunnar og vefstjóri Gló. Hún er með BA gráðu í ritlist og listfræði og MA í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands. Hún er mikið náttúrubarn, lærður jógakennari, í merki vatnsberans með ástríðu fyrir listum og heilsu.

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

Ofurfæðiskúlur – uppskrift
04. janúar, 2017
Súkkulaði smoothie – uppskrift
23. maí, 2016