Avatar Höf. 

ÞEGAR LÖNGUNIN GRÍPUR ÞIG


Það er brjálað að gera í vinnunni, þú ert að ganga í gegnum erfið sambandsslit, það er þessi tími mánaðarins, Ísland tapaði í einhverju, Ísland vann í einhverju. Við eigum flest daga þegar aðdráttaraflið í óhollan skyndibitamat og nammi er sérlega sterkt. Við getum vissulega ekki alltaf haldið okkur við fullkomið mataræði, en við getum reynt að gera okkar besta til þess að fylla skápana af hollustu og losa okkur við mikið unna matvöru, til að bæta heilsuna og lengja lífið. Þetta á ekki að snúast um að telja kaloríur heldur hvaða efni þú vilt innbyrða. Óhollur skyndibitamatur, alls kyns ruslfæði og sælgæti er flest fullt af óhollum transfitum, eiturefnum og gerviefnum – og í raun inniheldur þess konar matur ekkert af því sem líkaminn kallar á.

Ég get verið mathákur mikill en það hefur reynst mér vel, þegar löngunin grípur mig, að spá í hvað líkamanum gæti raunverulega vantað. Ég prufa alltaf fyrst vatn, oftast kemur í ljós að ég var bara þyrst. Ef það virkar ekki þá fer ég mögulega í bað ef færi er á eða tek hugleiðslu, kannski er þetta stress? En ef ekkert virkar þá læt ég að sjálfsögðu eftir mér og fæ mér eitthvað; vel salt, sætt eða djúsi. Þá er þó lykilatriðið að ég reyni að fá mér heilsusamlegri útgáfuna af því sem ég þrái. Hér eru nokkrir hollari valkostir:

ÚT MEÐ KARTÖFLUFLÖGUR INN MEÐ GRÆNMETISFLÖGUR

Algengustu kartöflu- og maísflögurnar eru stútfullar af transfitum, sterkju og oftast með erfðabreyttu innihaldi. Einnig þarf mjög háan hita til þess að steikja þær og það ferli býr til óhollar transfitur.

Ef það er stökka og salta bragðið sem þú ert að leita eftir reyndu þá að fá þér frekar þurrkað kál eða grænmetisflögur. Eða jafnvel betra, búðu til þínar eigin. Skerðu niður grænmeti í þunnar sneiðar, kryddaðu og helltu smávegis af fljótandi kókosolíu yfir og smelltu inn í ofninn. Bakaðu þær á 200 gráðum í 20 mínútur eða þar til þær verða stökkar.

ÚT MEÐ FRANSKAR INN MEРSÆTKARTÖFLUFRANSKAR

Djúpsteiking gerir engum gott og olíurnar sem notaðar eru til þess að steikja franskar eru oftast erfðabreyttar.Veldu sætkartöflufranskar frekar en venjulegar franskar þegar það er í boði, þar sem þær eru næringarríkari og innihalda minni sterkju.

Eða þú getur búið þær til: Skerðu sæta kartöflu niður í litlar franskar og veltu þeim upp úr ghee-i eða kókosolíu og svo salti. Kryddaðu næst með karrý kryddi, papriku- eða hvítlaukskryddi. Settu bökunarpappír á plötu , dreifðu úr frönskunum jafnt yfir og eldaðu á 200 gráðum í 20-30 mínútur. Svo gott að kokteilsósa er óþörf!

ÚT MEÐ GOSDRYKKI INN MEРKOMBUCHA

Að neyta gosdrykkja er erfiður vani að losa sig við. Þeir eru fullir af sykri oftast í formi „high-fructose corn syrup“ eða gerivsykra, fullir af litarefnum og bragðefnum – Það er í raun engin kostur við hefðbundinn gosdrykk en þeir eru afar ávanabindandi. Að leyfa sér mikla gosdrykkju getur komið líkamanum í ójafnvægi og valdið á endanum sykursýki, offitu, tannskemmdum og hjartasjúkdómum. Ef það er einn óvani sem þú ættir að hætta alveg, þá er það þessi.

Það eru sem betur fer margir skárri gosdrykkir komnir á markað sem eru með hollari sætu en enginn gerir jafn mikið fyrir líkamann og Kombucha. Gerlarnir í þeim drykk valda því að hann er frábær fyrir meltinguna, styrkir ónæmiskerfið og kemur jafnvægi á blóðsykur. Og loksins, loksins er Kombucha til sölu á Íslandi, að sjálfsögðu í Gló Fákafeni.

ÚT MEÐ ÖRBYLGJU POPP INN MEРLÍFRÆNAR POPPBAUNIR

Jeminn ég vona að sem fæstir séu ennþá að smella poppi í öbbann. Ef svo er taktu eftir! Flestir „instant“ popppokar eru smurðir að innan með eiturefnum, sömu efnum og eru notuð í teflon pönnur! Þessi efni hafa raunverulega verið tengd við ófrjósemi, krabbamein og ótal fleiri vandamál. Pokinn er svo ekki eina vandamálið. Oftast er þetta popp búið til úr erfðabreyttum maísbaunum og inniheldur transfitur, gervi bragðefni, rotvarnarefni svo eitthvað sé nefnt

Þú þarft ekki að hætta í poppinu, bara í örbylgjuofninum. Búðu til popp á gamla mátann með kókosolíu og lífrænum poppbaunum. Ef þú ert óvanur poppari, byrjaðu þá á því að setja nokkrar teskeiðar af kókosolíu eða Ghee í pott við meðalháan hita. Settu næst botnfylli af poppbaunum og lokaðu pottinum. Bíddu þar til poppið fer að poppa og fylgstu þá vel með svo að það brenni ekki, þegar það hægist á poppinu, taktu pottinn af hitanum og settu í stóra skál. Saltaðu vel og ef þú vilt þá getur þú prufað þig áfram með önnur krydd eða næringarger sem gefur því skemmtilegt bragð.

MINNA AF VENJULEGU PASTA MEIRA AF BAUNAPASTA

Þetta er í raun áminning fyrir mig sjálfa, þar sem ég er með glúteinóþol og virðist gleyma því reglulega. En eins og við vitum flest þá er ekki mikil næring í venjulegu hveitipasta. En sem betur fer eru komnar ýmsar nýjungar sem geta komið í stað hitaeiningarríkra hveitibita. Frá Kelpnúðlum til baunanúðla þá ættir þú að geta fundið eitthvað sem þér líkar við. Mér finnst svarta baunapastað tryllt, en það er glúteinlaust og bara úr baunum og vatni, þarf svo bara olíu og salt eftir að það er soðið og voila! Kelpnúðlurnar, sem eru unnar úr þara, eru svo mjög næringarríkar, glúteinlausar og passa mjög vel í flesta asíska matargerð að mínu mati.

MINNA AF RJÓMAÍS MEIRA AF VEGAN ÍS!

Við erum víst ekki kálfar og því algjör óþarfi að úða í okkur kúamjólk í brauðformi daglega yfir sumartímann. Ég er líka með mjólkuróþol eins og svo margir og það tók mig langan tíma að finna rétta staðgengilinn og var ég því lengi vel að taka “svindl“ og tók því afleiðingunum í staðinn. Ég er ekki að segja að þú eigir aldrei að fá þér ís, en ég er bara að stinga upp á öðrum kostum. Þú þarft til dæmis ekki að vera vegan til þess að fá þér vegan ís og þeir geta verið alveg jafn góðir, trúðu mér.

ÚT MEÐ SPORTDRYKKI INN MEРKÓKOSVATN

Ýmsir æfingadrykkir hafa verið markaðsettir sem besta leiðin til að bæta á vökva líkamanns og steinefnabyrgðir líkamans. En þessir drykkir eru oftast stútfullir af sykri sem fara með blóðsykurinn í rússíbana. Gæða kókosvatn er frábær staðgengill sem sífellt fleiri eru búnir að uppgötva, sérstaklega fólk sem stundar heitt jóga. Ég trúi á töfra þess eftir að hafa séð virkni þess á mig eftir erfiða matareitrun í Indlandi, kókosvatn bjargaði mér alveg og því efast ég ekki um virkni þess í eina mínútu. Skoðaðu samt aftan á umbúðirnar því að þú vilt ekki viðbættan sykur í kókosvatnið þitt, það er óþarfi.

UPPFÆRÐU SÚKKULAÐI OG NAMMIVALIÐ

Sykur er vissulega bara sykur, en það er hægt að vera vitur í valinu. Það versta sem þú færð er hvítur sykur og korn sýróp, sem og litarefni, rotvarnarefni og transfitur. Þegar kemur að súkkulaði veldu þá Fair trade og hrásúkkulaði til að fá mesta næringuna úr sætindunum.

Það eru svo til ótrúlegar góðar uppfærslur af öllu „nauðsynlegu“ nammi í Fákafeni sem valda eki vonbrigðum. Vegan karamellur, hrásúkkulaði…ofl.


Þessi listi gagnast þér vonandi sem undirbúingur fyrir næstu ómótstæðulegu löngun í óhollustu.

Dagný

 

  • 18. júlí, 2016
  • 0
Avatar
Dagný Berglind Gísladóttir
Um höfund

Dagný er ritstýra tímaritsins Í boði náttúrunnar og vefstjóri Gló. Hún er með BA gráðu í ritlist og listfræði og MA í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands. Hún er mikið náttúrubarn, lærður jógakennari, í merki vatnsberans með ástríðu fyrir listum og heilsu.

Þú gætir einnig haft áhuga á þessu

BORÐAÐU BETUR – yfir daginn!
27. ágúst, 2017
Hollt heilafóður
16. nóvember, 2016